Alvöru apabrauð sem allir elska

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

“Monkeybread” eða apabrauð er eitthvað sem er afar vinsælt í Bandaríkjunum. Það er oft bakað í kökuformi og síðan hvolft eða það er bakað í eldföstu formi líkt og hér er sýnt. Það er engin önnur en Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurin að þessari snilldar uppskrift.

Apabrauð

Deig

  • 460 g hveiti
  • 50 g sykur
  • 1 pk þurrger
  • 1 tsk. salt
  • 180 ml mjólk
  • 60 ml vatn
  • 60 g smjör
  • 1 egg

Aðferð:

  1. Hrærið saman hveiti, sykri, þurrgeri og salti.
  2. Bræðið smjörið í potti og hellið vatni og mjólk saman við þar til blandan velgist, varist þó að hún verði of heit fyrir gerið.
  3. Hellið smjörblöndunni saman við þurrefnin og byrjið að hnoða með króknum eða í höndunum, bætið egginu saman við.
  4. Það gæti þurft að bæta örlitlu af hveiti saman við ef deigið er of klístrað en setjið þá aðeins eina teskeið í senn.
  5. Þegar búið er að hnoða deigið vel saman má setja það í skál sem búið er að pensla með matarolíu, leggja viskastykki yfir og leyfa því að hefast í um 15 mínútur á meðan þið gangið frá og útbúið hjúpinn.

Hjúpur

  • 115 g smjör
  • 140 g sykur
  • 60 g púðursykur
  • 1 msk. kanill
  1. Bræðið smjörið og hellið í skál.
  2. Hrærið saman báðum tegundum af sykri og kanil í aðra skál og leggið til hliðar.

Glassúr

  • 80 g rjómaostur við stofuhita
  • 30 g brætt smjör
  • 220 g flórsykur
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 2 msk. mjólk
  1. Hrærið rjómaost og smjör saman.
  2. Bætið flórsykrinum saman við og því næst mjólk og vanilludropum.
  3. Hrærið þar til slétt og fellt.

Aðferð

  1. Rúllið deiginu í lengju, skiptið í 35-40 bita og rúllið í litlar kúlur.
  2. Smyrjið eldfast mót vel með smjöri.
  3. Rúllið hverri deigkúlu upp úr bræddu smjöri og síðan sykurblöndunni og raðið þeim óreglulega í formið. Gott er að nota ekki of stórt eldfast mót til þess að ná tveimur hæðum af kúlum, það gerir þetta enn girnilegra.
  4. Leggjið viskastykki laust yfir og leyfið kúlunum að hefast í um 45 mínútur (þær ættu nánast að tvöfalda stærð sína).
  5. Bakið við 180°C í um 25-30 mínútur eða þar til kúlurnar verða vel gylltar.
  6. Leyfið „apabrauðinu“ aðeins að kólna á meðan þið útbúið glassúrinn en því næst má dreifa honum óreglulega yfir og hafa afganginn í skál til hliðar til að hver og einn geti skammtað sér af vild.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Eldfasta mótið hefur vakið athygli en það fæst í Rúmfatalagernum.
Eldfasta mótið hefur vakið athygli en það fæst í Rúmfatalagernum. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert