Íslenskt wasabi gott með hangikjötinu

Ljósmynd/Bjorn Arnason

Viðskiptavinir nokkurra verslana á höfuðborgarsvæðinu munu eiga kost á því að kaupa íslenskt wasabi úr Fellabæ núna fyrir jólin. Framleiðslan er dýr og 50 gramma pakkning, sem dugar í gott matarboð, verður seld á um eða yfir tvö þúsund krónur út úr búð. Um helmingur framleiðslunnar á Héraði er fluttur út til hágæðaveitingastaða erlendis.

Ragnar Atli Tómasson og Johan Sindri Hansen eiga fyrirtækið Jurt ásamt fjárfestum og fyrsta framleiðslan undir heitinu Nordic Wasabi kom á markað fyrir tveimur árum. Ragnar Atli segir að um hágæðaframleiðslu sé að ræða og það sé talsverður áfangi að byrja að kynna vöruna fyrir neytendum í verslunum hér á landi. Fyrsta kastið verður Wasabi á boðstólum í Hagkaup í Garðabæ, fiskbúðinni Hafinu í Kópavogi og Spönginni og stærri Krónuverslunum.

Auk þess að nota wasabi í sushi segir Ragnar Atli að það njóti sín vel með hangikjöti, og þá sé sérstaklega gott að blanda því við sýrðan rjóma, reyktri bleikju og jafnvel öðrum fiski og steikum. Hann hvetur fólk til að prófa sig áfram með að nota wasabi við matargerð.

Frá upphafi hefur Jurt selt framleiðslu sína til nokkurra veitingastaða í Reykjavík og einnig flutt vöruna út til Evrópulanda, einkum Norðurlanda. Aðeins tvö fyrirtæki í Evrópu, Jurt og fyrirtæki á Englandi, framleiða ekta wasabi eins og Japanir eru þekktir fyrir. Ragnar Atli segir að í Evrópu sé yfirleitt notuð blanda af piparrót, sinnepi og matarlit í sushi og kallað wasabi þó svo að um eftirlíkingu sé að ræða.

Framleiðslugeta fyrirtækisins er nú nokkur tonn á ári og hefur aukist jafnt og þétt frá upphafi. Það tekur um eitt ár að rækta wasabi-plöntuna, sem þarf alltaf að vera fersk og segir Ragnar Atli að því þurfi að skipuleggja uppskeru og sölumál fram í tímann.

Öll plantan er borðuð

Ræktunin fer fram í hátæknigróðurhúsi í Fellabæ, alls á um tvö þúsund fermetrum. Gott vatn, rafmagn og jarðhiti eru lykillinn að hágæðaafurðum og segir Ragnar Atli að áhersla sé lögð á endurnýjanlega orkugjafa og umhverfisþætti. Húsnæði í Fellabæ er ekki fullnýtt þannig að fyrirtækið hefur möguleika á að auka framleiðsluna þar eftir því sem eftirspurn eykst. Ragnar og Sindri sjá um allan rekstur ásamt tveimur starfsmönnun í ræktun og sölu í Fellabæ og Reykjavík.

Wasabi-jurtin er japönsk að uppruna og er stilkur hennar maukaður við matargerð. Stundum er gestum veitingahúsa boðið að fylgjast með þegar það er gert. Eftir að stilkurinn er rifinn endist bragðið í skamman tíma en byrjar síðan að dofna. Því er mikilvægt að bjóða vöruna alltaf ferska.

Öll plantan er æt og blómstrar yfir vetrartímann. Blöðin og blómin eru sérstaklega vinsæl hjá kokkum hér heima og í Evrópu í salöt og diskaskreytingar en þau gefa milt wasabibragð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert