Konunglegar karamellusmákökur að hætti Kristbjargar

Hver slær hendinni á móti uppskrift sem tekur smákökurnar upp á næsta stig? Smákökur sem eru í senn bæði ofboðslega einfaldar og afskaplega bragðgóðar.

Það er Kristbjörg Smáradóttir Hansen, matgæðingur og eldhússnillingur, sem á heiðurinn að þessari uppskrift en hún er afar dugleg við að þróa nýjar uppskriftir og mætti með þessar í vinnuna á dögunum og kláruðust þær strax. 

Konunglegar karamellusmákökur
  • 225 g brætt smjör
  • 250 g sykur
  • 2 egg
  • 300 g hveiti
  • 2 tsk. Royal-lyftiduft
  • 1 tsk. salt
  • 1 pakki Royal-karamellubúðingur
  • 100 g saxaðar pekanhnetur
  • 150 g karamellukurl frá Nóa Siríus

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C. Byrjið á að bræða smjörið í potti og leyfið því svo að kólna alveg. Vigtið sykurinn í skál og blandið smjörinu vel saman við með písk. Bætið eggjunum við, einu í senn og hrærið vel á milli. Blandið restinni af þurrefnunum, ásamt Royal-búðingsduftinu, vel saman í annarri skál. Blandið nú þurrefnunum, karamellukurlinu og pekanhnetunum rólega saman við smjörblönduna og hrærið saman á milli. Búið til litlar kúlur og raðið á ofnplötuna með smá bili á milli. 

Bakið í 10 mínútur við 180°C. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert