Dumplings með hvítlaukshunangssósu og grænmeti

Ljósmynd/María Gomez

María Gomez á Paz.is reiðir hér fram rétt sem er einstaklega girnilegur eins og henni einni er lagið. Austurlenskir tónar svífa hér yfir vötnum og þetta er klárlega uppskrift sem vert er að prófa.

Dumplings er eitthvað sem mér hefur alltaf fundist vera áhugavert og spennandi. Ég viðurkenni þó að ég nenni ekki að gera það frá grunni.

Hér gerði ég rétt sem var alveg geggjaður, steikt grænmeti með hvítlaukshunangssósu, dumplings og grjónum. Að toppa það með vorlauk og ristuðum sesamfræjum og kasjúhnetum gerði þetta alveg upp á 100.

Dumplings með hvítlaukshunangssósu og grænmeti

Grænmetið

  • 2 cm þykkur langur bútur af engiferrót
  • 500 gr. sykurbaunir ferskar
  • 250 gr. sveppir
  • 1 græn paprika
  • 3 meðalstórar gulrætur
  • 4 vorlaukar
  • 1 dl góð olía (ekki nota ólífu, frekar bragðlitla matarolíu)
  • 2 pakkar Itsu-kjúklinga dumplings
  • smá kreista af sítrónusafa

Sósan

  • 185 gr. hunang
  • 4 msk. soja-sósa
  • 1 msk. sriracha-sósa
  • 2 msk. sweet chili-sósa
  • 2 tsk. hvítlauksduft (ath. ekki hvítlaukssalt) heitir garlic powder á ensku
  • 1 1/2 dl soðið vatn

ofan á

  • Græni parturinn af vorlauknum
  • ristuð sesamfræ
  • ristaðar kasjúhnetur
  • 2 pokar af Tilda Basmati-grjónum soðin

Aðferð

Grænmetið

  1. Skerið papriku niður í mjóar ræmur langsum og gerið það líka við gulræturnar og engiferrótina (ég notaði skrælara til að skera gulrótina langsum í þunnar ræmur)
  2. Skerið sveppi í sneiðar og leyfið sykurbaunum að vera heilum. Vorlaukinn er fallegt að skera á ská en bara laukpartinn af honum, geymið efsta græna lagið
  3. Hitið svo olíuna á pönnu og setjið allt grænmetið saman út á og saltið létt yfir og piprið
  4. Leyfið grænmetinu að mýkjast ögn og kreistið smá sítrónusafa yfir, gott að leyfa því að malla og hræra reglulega í í eins og 10 mínútur
  5. Gerið svo sósuna á meðan og sjóðið grjónin eftir leiðbeiningum

Sósan

  1. Setjið í pott við miðlungshita hunang, sojasósu, Sriracha-sósu, sweet chili-sósu og hvítlauksduft þar til fer að sjóða
  2. Setjið þá kartöflumjölið út í og hrærið mjög vel á meðan svo það verði ekki kekkjótt
  3. Bætið svo heita vatninu strax út í og hrærið vel þar til verður þykkt en hún þarf að sjóða smá
  4. Hellið svo sósunni yfir grænmetið og hrærið saman
  5. Setjið svo dumplingsið út á og hrærið vel aftur og leyfið að malla undir loki í ca. 10 mínútur en hrærið reglulega í á milli
  6. Ristið fræin og hneturnar og klippið græna partinn af vorlauknum í litla hringi
  7. Berið fram með grjónin undir, réttinn ofan á og toppið með vorlauk, sesamfræjum og kasjúhnetum
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert