Japanskt silki

Sætir blómatónar einkenna ilm og bragð Chita.
Sætir blómatónar einkenna ilm og bragð Chita. Ásgeir Ingvarsson

Ég skal alveg viðurkenna að frammistaða Bills Murrays í eðalmyndinni Lost in Translation átti stóran þátt í að kveikja hjá mér viskíáhugann. Í einu af lykilatriðum myndarinnar tekst Soffíu Coppola, leikstjóra og handritshöfundi, að tvinna meginstef myndarinnar saman við eitt merkilegasta vörumerki Japans og þá skrítnu japönsku hefð að fá bandarískar stórstjörnur til að leika í auglýsingum.

Í óborganlegri senunni snýr Murray sér að myndavélinni klæddur í smóking og ber viskíglas upp að vörum sér um leið og hann segir: „For relaxing times; make it Suntory time.“

Mig grunar að Murray hafi þarna, alveg óvart, markað upphafið að þeirri miklu sprengingu sem síðar varð í áhuga almennings á vönduðu viskíi. Um leið kom hann japönsku gæðaviskíi rækilega á kortið og skyndilega gátu barþjónar á Vesturlöndum vænst þess að vera beðnir um glas af japönsku viskíi – „Suntory time“ er allt sem á að þurfa að segja við barborðið.

Undanfarna tvo áratugi hefur hróður japansks viskís vaxið hratt, og varð t.d. uppi fótur og fit í viskíheiminum eitt árið þegar viskí-gúrúinn Jim Murray valdi viskí frá Suntory sem besta viskí í víðri veröld. Hafa vörur Suntory verið reglulegir gestir á viskí-listum gúrúsins mikla og verðið á þessum japanska drykk farið hækkandi í takt við það hvernig flöskurnar hverfa æ hraðar úr hillum verslana. Eru eldri gerðirnar af Suntory rándýrar og vandfundnar.

Blessunarlega hefur Suntory tekist ágætlega að bregðast við vaxandi eftirspurn með auknu framboði af viskíi í ýmsum verðflokkum. Nýleg viðbót er Chita, sem hefur verið að fikra sig inn á vestræna markaði á undanförnum árum og fæst meira að sega á Íslandi – þó aðeins í fríhöfninni.

Um er að ræða kornviskí sem býr yfir öllum þeim kostum sem eiga að prýða japanskt gæðaviskí. Chita Distillers Reserve er ungt viskí en þó hæfilega milt og aðgengilegt, og einkennist bæði lykt og bragð af sætum tónum og blómum enda viskíið fengið að þroskast í búrbon, sérrí- og víntunnum.

Þeir sem vilja viskí sem rífur í bragðlaukana og fyllir nef og munn af reyk og torfi verða ekki hrifnir, en fyrir alla hina er Chita auðdrekkanlegt og ómótstæðilegt, silkimjúkt en samt þannig að áhugaverð blæbrigði er að finna í hverjum sopa.



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert