Framleiða hágæðapróteinduft úr repjuhrati

Ljósmynd/Aðsend

Nýtt pólskt líftæknifyrirtæki framleiðir nú prótein úr repju og stuðlar þannig að sóunarlausri (Zero Waste) framleiðslu. Byltingarkennd nýjung í sjálfbærni.

Ný tækni hjá pólska líftæknifyrirtækinu NapiFeryn BioTech gerir fyrirtækjum sem vinna olíu úr repjufræjum kleift að endurvinna hratið sem fellur til við framleiðsluna og gera úr því úrvals próteinduft.

Próteinduftið er hlutlaust á bragðið og meðfærilegt þannig að raunhæft þykir að það geti verið góður og samkeppnishæfur kostur sem próteingjafi í framtíðinni. Verkefnið FutureKitchen, sem Matís leiðir, byggist á hugmyndinni um skemmtimennt (e. Infotainment) og leitast við að virkja ungt fólk í samtali um mat, tækni og nýsköpun í gegnum leik og menntun. Í meðfylgjandi myndbandi sést hvernig þessi nýja tækni í próteinframleiðslu úr repjufæjum virkar í sýndarveruleika.

Magdalena Kozlowska, forstjóri NapiFeryn BioTech, segist eiga von á að repjuprótein verði fáanlegt í verslunum árið 2022. Hún segir fyrirtækið þurfa tíma til að aðlaga tæknina og ferla innan fyrirtækisins að kröfum iðnaðarins auk þess sem viðskiptavinir hafi þá tíma til að auka úrval afurða úr próteininu. Eins og er eiga þau þó prufuskammta fyrir svoleiðis þróunarverkefni.

Frá náttúrunnar hendi er repja fremur bragðsterk og bitur sem hefur hingað til takmarkað notkunarmöguleika hennar verulega. NapiFeryn hefur þó þróað sína eigin tæknilausn við það að einangra og hreinsa prótein frá öðrum næringarefnum og eyða bragði, lykt og lit úr repjunni sem aðrir framleiðendur olíu úr fræjum gætu einnig tileinkað sér.

Aukin eftirspurn eftir sjálfbærum próteingjöfum

Fólksfjöldi heimsins eykst frá ári til árs og gert er ráð fyrir að árið 2050 verði fjöldi fólks í heiminum um 9,7 milljarðar. Það er því afar mikilvægt að stunda nýsköpun í matvælaframleiðslu og NapiFeryn gerir það með því að nýta betur repjuna, sem þegar vex víða um heim. Repjupróteinið er ekki ofnæmisvaldandi og gefur öðrum algengari, en minna sjálfbærum, próteingjöfum því ekkert eftir.

Ef repjan, sem í dag er aðallega nýtt í dýrafóður, yrði nýtt til manneldis er áætlað að hún myndi nýtast sem næring fyrir um 3,5 milljarða manna.

Skemmtimennt um samspil matar og tækni hvetur til lærdóms

Myndbandið er hluti af verkefninu FutureKitchen sem miðar að því að fá ungt fólk með í umræðuna um mat og tækni. Með sýndarveruleikamyndböndum verður fólk hluti af vettvangnum þar sem vinnan fer fram og verður vitni að því hvernig matartengd vísindi, tækni og nýsköpun getur stuðað að aukinni sjálfbærni. Sýndarveruleiki hentar fjölbreyttri námstækni og stimplar sig yfirleitt vel inn í minni nemenda. Markmið myndbandanna er að vekja athygli og forvitni og fá fólk til að hugsa um matarkerfið okkar eða huga jafnvel að starfsframa í matartækni.

Verkefnastjóri FutureKitchen-verkefnisins, Justine Vanhalst segir: „Jafnvel þótt fólk eigi ekki sýndarveruleikagleraugu, sem geta verið dálítið dýr, þá er vel hægt að upplifa sýndarveruleikann í snjallsímum með því að snúa skjánum til og frá, í tölvunni með því að færa músina til eða með ódýrum sýndarveruleikagleraugum úr pappa. Þetta er auðveldara en fólk gæti haldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert