Borð nr. 16 frátekið

Jóhann Hákonarson og Ágúst Gunnarsson mættu á Jómfrúna í Lækjargötu …
Jóhann Hákonarson og Ágúst Gunnarsson mættu á Jómfrúna í Lækjargötu fyrir viku og héldu upp á að hafa borðað þar 800 sinnum. Ljósmynd/Hreinn Hákonarson

Matur er mannsins megin og félagarnir Ágúst Gunnarsson og Jóhann Hákonarson hafa það gjarnan í huga. Undanfarin 26 ár hafa þeir haldið vinnufund með áherslu á góðan mat og gott andrúmsloft í hádeginu á föstudögum. Þeir hafa reglulega snætt á Jómfrúnni í Lækjargötu í Reykjavík frá aldamótum, og sl. föstudag héldu þeir upp á að hafa borðað átta hundrað sinnum á veitingastaðnum.

„Þetta er fastur punktur í tilverunni, við höfum fengið frábæran mat og fundirnir hafa verið árangursríkir fyrir bragðið,“ segir Jóhann. „Við getum ekki sleppt þessu og bíðum spenntir eftir því að mæta í þúsundasta skiptið.“

Heildverslunin Dan-inn ehf., sem félagarnir stofnuðu 1995, var fyrst á Skúlagötu og þá byrjuðu þeir að taka hádegið á föstudögum frá í þeim tilgangi að gera vel við sig á meðan þeir ræddu aðkallandi mál.

„Fyrstu árin röltum við upp Vitastíginn og fórum á Svarta kaffið á Laugaveginum, en eftir að við fluttum í Skútuvoginn höfum við „átt“ okkar tveggja manna borð á Jómfrúnni, borð númer 16,“ segir Jóhann. Hann bætir við að fjórir geti setið við borðið, stundum taki þeir viðskiptavini með sér og þegar jólahlaðborðið byrji þurfi þeir gjarnan stærra borð. „Við látum vita með fyrirvara ef við komumst ekki en yfirleitt erum við á tilsettum tíma. Tvisvar hefur komið fyrir að borðið hafi verið látið til annarra áður en við létum sjá okkur og við vorum ekki kátir með það en annars höfum við ekki yfir neinu að kvarta heldur þvert á móti og í raun bíðum við alla vikuna eftir næsta föstudagsfundi.“

Jakob Jakobsson, þáverandi eigandi Jómfrúarinnar, og Sigurður Vigfússon þjónn gerðu …
Jakob Jakobsson, þáverandi eigandi Jómfrúarinnar, og Sigurður Vigfússon þjónn gerðu vel við félaganna þegar þeir mættu í 500. sinn árið 2012.

Fengu sitt þótt lokað væri vegna veiru

Jómfrúin var lokuð á tímabili vegna kórónuveirufaraldursins en það truflaði „okkar menn“ ekki mikið. „Þá pöntuðum við matinn, sóttum hann og borðuðum í fyrirtækinu okkar,“ segir Jóhann. „Ég er svolítill sérvitringur og fæ mér oft sömu réttina en Ágúst borðar allt sem að kjafti kemur. Reyndar fáum við okkur gjarnan tvær mismunandi hálfar sneiðar hvor og það hefur reynst okkur vel.“

Til að byrja með létu Jóhann og Ágúst sér ekki nægja að borða saman einu sinni í viku heldur fóru þeir líka í bæinn síðasta kvöld hvers mánaðar eftir að hafa gengið frá reikningum og sett umslögin í póst. „Tæknin tók þessa ánægju frá okkur, því nú eru engir reikningar sendir í pósti heldur bara ýtt á „enter“ á tölvunni.“

Fyrstu árin fluttu þeir einkum inn danskar byggingavörur og voru þá oftar í Danmörku en undanfarin ár. „Þá fórum við á staði sem eru svipaðir Jómfrúnni og gerum enn,“ segir Jóhann og nefnir sérstaklega Sankt Annæ á Sankt Annæ-torgi í Kaupmannahöfn, Schønnemann á Hauser-torgi og Husmanns Vinstue skammt frá Ráðhústorginu. „Þetta eru allt toppstaðir. Við förum oft í helgarferð til Köben til þess að fá jólamatinn á síðastnefnda staðnum og þegar við viljum gera sérstaklega vel við okkur verður Schønnemann fyrir valinu en þar verður að panta borð með góðum fyrirvara.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert