Hvernig virka nýju pakkningarnar?

Ný framleiðslulína Ölgerðarinnar var nýverið tekin í notkun og þar með fjórfaldaðist framleiðslugetan í drykkjarvöruhluta fyrirtækisins. Eins og neytendur hafa orðið varir við að undanförnu, eru nýjar pakkningar frá Ölgerðinni farnar að sjást í verslunum. Einhverjir hafa velt fyrir sér hvernig þær virka en Ölgerðin sendi nýverið frá sér stutt og skemmtilegt myndband sem sýnir kosti þessara nýju pakkninga.

„Nýja línan gefur okkur fjölmarga möguleika, bæði hvað varðar dósirnar sjálfar og eins ytri pakkningarnar utan um dósirnar. Gosdrykkirnir koma núna í hærri og mjórri dósum og bæði er boðið upp á 6 stykkja einingar og fyrir vinsælustu vörurnar er einnig boðið upp á 12 stykkja einingar,“ segir Gunnar B. Sigurgeirsson, aðstoðarforstjóri Ölgerðarinnar. „Nýju pakkningarnar eru mjög notendavænar en við höfum líka séð að það þarf að venjast því hvernig þær eru opnaðar. Þær eru ólíkar gömlu rútunum sem allir þekkja.“

„Við fengum hana Birnu Rún, leikkonu, til að sýna okkur hvernig best er að opna nýju pakkningar og hvernig megi koma þeim fyrir í ísskápnum og úr varð þetta skemmtilega vídeó þar sem við fáum að skyggnast inn í ísskápinn hjá Birnu,“ segir Gunnar en meðfylgjandi myndband ætti að taka allan vafa af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert