Sendiherrafrúin sem elskar að elda

Margrét Sigfúsdóttir og Eliza Reid voru áhugasamir nemendur hjá Ramya …
Margrét Sigfúsdóttir og Eliza Reid voru áhugasamir nemendur hjá Ramya Shyam, sendiherrafrú Indlands. mbl.is/Ásdís

Eftirvæntingin lá í loftinu þegar áhugakokkar nokkrir komu saman hjá Salt eldhúsi á námskeið fyrr í vikunni. Gestakennari var að þessu sinni ekki af verri endanum. Hin indverska Ramya Shyam sem hér býr ásamt eiginmanni sínum, sendiherranum Shri Balasubramanian Shyam, kann til verka við matargerð. Ramya er grænmetisæta og hefur verið alla ævi. Hún byrjaði á að kynna fyrir nemendum hvað hún hygðist kenna, sem var að sjálfsögðu grænmetis-réttir.

Það var nóg að gera í eldhúsinu við að elda …
Það var nóg að gera í eldhúsinu við að elda indverska grænmetisrétti.

„Ég vil elda eitthvað sem er hollt og gott fyrir líkama og sál. Þetta eru allt réttir sem þið getið eldað heima hjá ykkur reglulega. Þetta er ekta heimilismatur sem lætur manni líða vel,“ segir Ramya og byrjar fimlega að skera lauk undir vökulu auga nemendanna Elizu Reid, forsetafrúar Íslands, og Margrétar Sigfúsdóttur, fráfarandi skólastjóra Hússtjórnarskóla Reykjavíkur.

Maturinn leit vel út þegar hann var kominn á borð.
Maturinn leit vel út þegar hann var kominn á borð.

Nemendur skiptust í nokkra litla hópa og hófust handa við að elda ilmandi hrísgrjón, spínat- og kartöflurétt, linsubaunaréttinn dal og pakoda, sem eru steiktir laukklattar. Að lokum bjó Ramya til eftirréttagraut handa öllum. Enginn af þessum réttum er flókinn og því tilvalið fyrir fólk að spreyta sig á þeim heima!

Kom með opinn huga

Maturinn var svo borinn á borð og sest að snæðingi og óhætt er að segja að enginn hafi orðið fyrir vonbrigðum. Réttirnir pössuðu vel saman og voru afar bragðgóðir, án þess að vera of sterkir. Það var kátt á hjalla við matarborðið og allir fóru saddir og sælir heim.

Ramya veit fátt skemmtilegra en að elda og borða.
Ramya veit fátt skemmtilegra en að elda og borða.

Blaðamaður greip sendiherrafrúna í smá spjall eftir matinn.

„Ég hef verið hér núna í tæpt ár og það hefur verið yndislegt. Ég fer mikið út að ganga í náttúrunni og á hér lítinn vinahóp sem fer oft með mér. Við ætlum að skoða meira af landinu í sumar,“ segir Ramya, sem segist eiga eftir að ferðast víðar um landið.

„Þetta er sjötti viðkomustaður okkar hjóna og allir staðir hafa sínar áskoranir og sínar jákvæðu hliðar. Ég reyni að líta frekar á hið jákvæða og kom hingað með opnum huga,“ segir hún og segir veðrið hér á landi alls ekki trufla sig.

„Við höfum áður verið í Japan, Egyptalandi, Mjanmar, Bangladess og Srí Lanka og hver skipun er þrjú ár,“ segir hún og segist ekki geta smakkað mikið af hefðbundnum íslenskum mat þar sem slíkir réttir innihalda flestir kjöt og fisk.

Það fóru allir saddir og sælir heim.
Það fóru allir saddir og sælir heim.

Elda af ástríðu

Ramya hefur mikinn áhuga á matargerð og segist hafa haldið námskeið í Japan, þar sem hún lærði sjálf einnig ýmislegt í matargerð.

„Ég hef sjálf bæði sótt námskeið og kennt þannig að mér fannst gaman að koma og kenna hér. Mig hefur lengi langað að halda hér eitt námskeið. Ég elska að elda og geri það af ástríðu. Svo finnst mér gaman að kenna öðrum. Mér finnst bæði gaman að elda og borða,“ segir hún og brosir.

„Mamma kenndi mér að elda en það má segja að ég hafi aldrei eldað með henni heldur fylgdist ég vel með öllu sem hún gerði í eldhúsinu. Ég gifti mig 23 ára og maðurinn minn bjóst við að ég eldaði mat eins og mamma hans hafði gert. Ég fór að prófa mig áfram og hef líka lært mikið af tengdamömmu, sem býr hjá okkur,“ segir hún og segist geta leitað til tengdamóður sinnar eftir góðum ráðum.

„Maturinn sem ég er með hér er einfaldur heimilismatur, hollur og góður. Ég er grænmetisæta frá fæðingu; öll fjölskyldan borðar bara grænmeti og hefur það verið þannig í margar kynslóðir,“ segir hún.

„Mig langar að halda fleiri námskeið, hér eða annars staðar. Mér finnst svo gaman að elda og ég vil deila gleðinni með fleirum.“

Nánar má lesa um matreiðslunámskeiðið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina en þar má einnig finna allar uppskriftirnar. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert