Franskara verður það varla

Sigríður Björk Bragadóttir hefur mikið dálæti á frönskum kræsingum. Hún …
Sigríður Björk Bragadóttir hefur mikið dálæti á frönskum kræsingum. Hún er iðin við að bera fram franskan mat sem hún hefur kynnst í Frakklandi. Morgunblaðið/Karítas

Sigríður Björk Bragadóttir, matreiðslumaður og eigandi Salts Eldhúss, hefur mikið dálæti á frönskum kræsingum og er iðin við að leika listir sínar í eldhúsinu með franskar uppskriftir. Hún galdraði fram þessa dýrðlegu tarte tatin-eplaböku sem Frakkar elska. Hún er oft kölluð eplahvolfkakan.

Hér er búið að hvolfa henni niður á disk og …
Hér er búið að hvolfa henni niður á disk og sjá má að hún ber nafn með rentu þegar hún er kölluð eplahvolfkakan. mbl.is/Karítas

„Hún er mjög oft einn af þeim eftirréttum sem eru í boði á bistró-veitingahúsum í Frakklandi, sem bjóða upp á heimilislegan mat. Á hinum dæmigerða franska bistró, sem er gjarnan hverfisstaður þar sem boðið er upp á góða, hefðbundna franska rétti á sanngjörnu verði og gjarnan vel útilátna,“ segir Sigríður.

Sigríður segir að sagan á bak við bökuna sé afar skemmtileg.

„Tatin-systur nokkrar, sem ráku hótel og veitingastað við helstu veiðilendur hefðarfólksins í Sologne-héraði í Loire-dalnum á seinni hluta nítjándu aldar, buðu upp á mjúka, karamelliseraða eplaböku í eftirrétt á veitingastaðnum sínum. Eitt sinn, á háannatíma, uppgötvaðist að eplin, smjörið og sykurinn, sem höfðu verið sett í form og í ofninn, voru langleiðina bökuð en í hamaganginum hafði gleymst að setja deigið í formið. Snör handtök björguðu þessu og deiginu var einfaldlega skellt ofan á og svo bakað áfram. Þegar bakan var tilbúin var henni einfaldlega hvolft á disk og borin fram þannig.“

Svona lítur þessa dásamlega baka út þegar hún kemur út …
Svona lítur þessa dásamlega baka út þegar hún kemur út úr ofninum. mbl.is/Karítas

Sendi bakara í njósnaleiðangur

„Eigandi Maxim’s í París, sem staddur var á veitingastað þeirra systra ásamt fyrirfólki, hreifst af þessum eftirrétti og bað systurnar um uppskriftina en þær neituðu. Hann dó nú ekki ráðalaus heldur sendi bakara frá Maxim’s í njósnaleiðangur, dulbúinn sem garðyrkjumann, til að komast að því hvernig bakan var gerð. Bakarinn kom sér fyrir við glugga á eldhúsinu og komst að leyndarmálinu við bökugerðina. Eigandi Maxim’s var samt ekki alveg samviskulaus og kenndi eftirréttinn við þær Tatin-systur, tarte tatin. Það var síðan margrómaður matarkrítiker sem setti uppskriftina á prent, gaf út og kynnti matgæðingum Parísarborgar og víðar,“ bætir Sigríður við.

Eplin í bökunni eru í aðalhlutverki enda karamellukennd, bökuð í smjöri og sykri í langan tíma. Innihaldið er ekki flókið, fjögur hráefni: epli, sykur, smjör og hveiti. „Frakkar bjóða alltaf upp á sýrðan rjóma með bökunni enda sýrði rjóminn þeirra flauelsmjúkur og feitur og algjört nammi. Ég hef borið fullfeitan sýrðan rjóma með og þá bragðbættan með örlitlum sykri og vanillu. Bakan er bökuð í formi sem er heilt, ekki lausbotna því þá getur karamellan lekið úr forminu, og er 24 cm á breidd og 5 cm hátt,“ segir Sigríður að lokum og deilir hér uppskriftinni með lesendum.

Frakkar elska tarte tatin- eplabökuna og einfaldleikinn heillar. Eplin leika …
Frakkar elska tarte tatin- eplabökuna og einfaldleikinn heillar. Eplin leika aðalhlutverkið í þessari dýrð. mbl.is/Karítas

Tarte tatin – frönsk eplabaka

  • 250 g smjördeig eða sætt bökudeig
  • 6-8 epli, gott að nota granny smith (1 kg)
  • 100 g sykur
  • 60 g smjör

Ofan á

  • 50 g sykur
  • 20 g smjör, í litlum bitum

Aðferð:

  1. Rúllið deiginu út þannig að hægt sé að skera út 24 cm köku.
  2. Ef þið notið frosið smjördeigið nægja tvær plötur.
  3. Setjið deigið á plötu og í kæli á meðan þið undirbúið eplin.
  4. Skrælið eplin, skerið í fjórðunga og kjarnhreinsið þau.
  5. Bræðið sykur á pönnu þar til hann fer að brúnast, lækkið hitann eða takið pönnuna af hitanum og bætið smjöri út í, látið það bráðna í sykrinum.
  6. Hellið sykrinum í formið sem þið ætlið að baka kökuna í, það er allt í lagi þó að smjörið og sykurinn sé ekki samlagað.
  7. Hitið ofninn í 190°C.
  8. Raðið eplum þétt í formið.
  9. Stráið sykri ofan á og setjið smjörbita hér og þar ofan á eplin.
  10. Leggið smjördeigið ofan á en ekki þétt með fram börmunum heldur gefið loft með fram.
  11. Skerið litla skurði með hníf í deigið á fjórum stöðum, það er gert svo gufan losni frá eplunum á meðan þau bakast.
  12. Bakið bökuna í 50-60 mínútur.
  13. Látið hana þá bíða á borðinu stutta stund og hvolfið síðan á disk þegar formið er orðið það kalt að hægt sé að handleika það; gott er að losa vel um áður og hrista formið til svo eplin losni.
  14. Berið fram með fullfeitum sýrðum rjóma eða þeyttum rjóma, með örlitlum sykri og vanillu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka