Allt sem þú þarft að vita um drauga

Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi og draugaáhugamaður ræðir í þætti dagsins drauga og eðli þeirra. Til eru þó nokkrar tegundir af þeim fyrirbærum sem við alla jafna flokkum sem drauga. Útburðir, tilberar, ástardraugar, brennivínsdraugar og svo þeir hættulegustu - uppvaktir draugar. Bjarni fer yfir þær sögur og sagnir sem hann hefur safnað og hvað má læra af þeim. Sjálfur segist hann engu trúa en það feli í raun í sér að hann útilokar ekki neitt. Kann að vera að uppvakinn draugur úr gamla kirkjugarðinum í Villingaholtshreppi hafi ráðist á forseta Íslands í útreiðartúr fyrir nokkrum árum? Nú er sá tími árs sem álfar og aðrar handanheimsverur eru hvað mest á ferli. Bjarni rifjar upp söguna af bóndanum sem mætti álfum í flutningum og þeir buðu honum gull og gersamar. Að lokum var það svo hangiflotið sem felldi bóndann. Loks fer Bjarni yfir það hvernig rétt er að bregðast við draugum verði þeir á vegi okkar. Vitneskja sem horfin er flestum nútímamönnum.