Alþjóðasamtökin Save the Children starfa fyrir og með börnum í yfir 120 löndum. Samtökin berjast fyrir rétti og velferð barna hvar sem er í heiminum.
Skjót neyðaraðstoð
Samtökin Save the Children brugðust skjótt við til að koma börnum og fjölskyldum þeirra sem urðu illa úti í hamförunum í Suðaustur-Asíu til hjálpar. Save the Children eru með starfsemi í þeim löndum sem verst urðu fyrir barðinu á flóðunum en áherslurnar breyttust úr uppbyggingarstarfi í neyðaraðstoð til þeirra sem eru mest þurfandi. Save the Children hafa unnið bæði í Acehhéraði og á Sri Lanka í nærri þrjá áratugi við þróunarverkefni þar sem lögð er áhersla á barnaréttindi og barnavernd. Neyðarsjóður samtakanna var nýttur til að bregðast við sem allra fyrst með því að dreifa m.a. fjölskyldupökkum með helstu nauðsynjum s.s. mat, hreinlætisvörum og tjöldum.
Eftirlit og endurfundir
Hjálparstofnanir áætla að um 1,5 milljón barna séu í brýnni þörf fyrir skjóta neyðaraðstoð á hamfarasvæðunum í Suðaustur-Asíu. Þúsundir barna og fjölskyldur þeirra hafa misst heimili sín og þurfa að hafast við utan dyra. Þau börn sem lifðu hamfarirnar af eru í mikilli hættu á að veikjast af niðurgangi, kóleru og fleiri sjúkdómum. Einnig eru munaðarlaus börn og þau sem hafa orðið viðskila við fjölskyldur í hættu á að vera rænt eða misnotuð.
Aðgerðir Save the Children á Sri Lanka, Indónesíu og Indlandi
- Lögð er sérstök áhersla á að dreifa mat og hjálpargögnum til barna undir fimm ára aldri og fjölskyldna þeirra.
- Tryggja vernd barna og forða þeim sem týnt hafa foreldum sínum frá misnotkun.
- Vinna við að skrá börn sem eru ein og veita þeim stuðning og hjálp við að sameinast fjölskyldum sínum, í samstarfi við önnur hjálparsamtök.
- Langvarandi lausna verður leitað handa þeim börnum sem ekki finna fjölskyldu sínar aftur.
- Fjölskyldur sem hafa tekið að sér börn í tímabundið fóstur verða skráðar.
- Setja upp örugg neyðarskýli fyrir börnin þar sem þau geta dvalist og leikið sér á meðan unnið er að því að koma daglegu lífi þeirra í eðlilegar skorður eins fljótt og kostur er.
- Sálfræðiaðstoð og áfallahjálp til barnanna og fjölskyldna þeirra.
- Þjálfun heilbrigðisstarfsfólks.
- Fjölskyldur fá stuðning til að koma sér upp bráðabirgðahúsnæði.
- Fullorðnum í fjölskyldum verður veitt aðstoð til að komast í launaða vinnu.
- Uppbygging skóla og annarra menntastofnana á svæðunum.