Hjálp Rauða krossins frá fyrsta degi og næstu mánuði og ár
Sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins hafa frá fyrsta degi unnið að hjálparstörfum á flóðasvæðum í Asíu. Þeir hafa unnið að björgun mannslífa, hlúð að eftirlifendum, útvegað hreint drykkjarvatn, gert að sárum og reynt að koma í veg fyrir farsóttir. Á vegum Rauða kross Íslands eru fimm sendifulltrúar á hamfarasvæðunum, þar af fjórir í Indónesíu þar sem ástandið er verst. Á næstu mánuðum tekur við umfangsmikið uppbyggingarstarf og skipulagning þess er þegar hafin.
Sendifulltrúar Rauða kross Íslands á hamfarasvæðunum eru Hlér Guðjónsson á Sri Lanka og Ómar Valdimarsson, Guðbjörg Sveinsdóttir, Robin Bovey og Birna Halldórsdóttir í Indónesíu.
Þegar hafa 30 flugvélar frá Rauða krossinum lent á flóðasvæðum með vatn, segldúka, lyf, vatnshreinsitöflur og aðrar nauðsynjar. Fjórtán sérhæfð teymi eru að störfum á Sri Lanka og í Indónesíu sem útvega hreint vatn, hlúa að sárum, vinna að því að koma í veg fyrir farsóttir og dreifa hjálpargögnum. Hvert teymi sem vinnur að vatnsöflun getur útvegað drykkjarvatn fyrir 40 þúsund manns og fimm slík teymi eru að störfum á skaðasvæðinu.
Sjálfboðaliðar Rauða krossins brugðust við flóðunum strax í upphafi, enda búa þeir sjálfir á flóðasvæðunum. Margir þeirra hafa hlotið þjálfun í hamfaraviðbrögðum. Flestir hafa verið að störfum við verstu hugsanlegar aðstæður síðan á annan í jólum. Þeir hafa hlúð að eftirlifendum, aðstoðað við sameiningu fjölskyldna og safnað saman líkum þeirra sem létu lífið. Á Súmötru í Indónesíu söfnuðu rúmlega fimm hundruð sjálfboðaliðar Rauða krossins saman fjögur þúsund líkum.
Í Indónesíu er enn verið að veita skyndihjálp og skipuleggja aðstoð við eftirlifendur, enda hafa sumir afskekktir bæir nánast þurrkast út. Þegar björgunaraðgerðir eru yfirstaðnar þarf að huga að þörfum þeirra sem lifðu af, bæði til næstu mánaða og síðan til lengri framtíðar. Aðstoð Rauða krossins á næstunni mun einkum felast í því að útvega hreint vatn og bráðabirgðaskýli, sinna heilsugæslu, veita sálrænan stuðning og hlúa á margvíslegan hátt að þeim sem hafa misst allt sitt.
Rauði kross Íslands mun áfram veita aðstoð í formi fjárstuðnings við verkefnin á hamfarasvæðunum og með því að senda sérþjálfaða sendifulltrúa til að skipuleggja hjálparstarfið á vegum Alþjóða Rauða krossins.
Slóð: https://www.mbl.is//mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1119866
Skoðað: 2005-01-11 11:41
© mbl.is/Árvakur hf
© mbl.is/Árvakur hf, 2005