SOS-barnaþorpin eru alþjóðleg sjálfstæð samtök starfandi í 132 löndum.
Samtökin hafa byggt og reka 440 SOS-barnaþorp fyrir munaðarlaus eða
yfirgefin börn. Samtökin reka einnig grunnskóla, leikskóla,
félagsmiðstöðvar, verknámsskóla og heilsugæslustöðvar opnar almenningi.
Samtökin bregðast við neyð í nálægð við barnaþorpin hverju sinni.
Hvar fer neyðaraðstoð SOS-barnaþorpanna fram?
Á Indlandi eru neyðarbúðir fyrir börn sem eru alein. Í SOS-barnaþorpunum í Chennai og Visakhapatnam er einnig veitt neyðaraðstoð. Yfirvöld í héraðinu Pondicherry hafa beðið SOS-barnaþorpin um ábyrgð á þeim börnum sem eru nú orðin munaðarlaus.
Á Sri Lanka eru neyðarbúðir fyrir börn sem eru alein. Í SOS-félagsmiðstöðinni í Galle og í SOS-félagsmiðstöðinni í Batticaloa og fjórum nágrannabæjum er veitt SOS-neyðaraðstoð. Í hjálparstöð SOS-barnaþorpsins í Monragala er neyðaraðstoð veitt.
Í Indónesíu er SOS-teymi nú statt á Aceh-svæðinu til þess að koma upp neyðarbúðum þar. Búið er að gefa loforð um pláss handa 400 börnum í þeim 5 barnaþorpum sem fyrir eru í landinu. Unnið verður að samstarfi við stjórnvöld til þess að hægt verði að byggja nýtt SOS-barnaþorp.
Hvernig fer neyðaraðstoð SOS-barnaþorpanna fram?
1. Uppbygging
1.000 fjölskyldur (7.000 einstaklingar) á Sri Lanka og Indlandi, heimilislausar einstæðar mæður og börn þeirra fá aðstoð við að byggja upp heimili sín og skapa tekjur. Á fyrsta stigi fá fjölskyldurnar 20 þúsund krónur, upphæð sem þær gátu lifað af í nokkra mánuði fyrir hamfarirnar. Á næsta stigi fá þær meiri aðstoð til þess að skapa sér atvinnu og byggja upp heimili. Á þriðja stigi er fjölskyldunum veitt aðstoð út árið 2005 eða þar til lífsgrundvöllur þeirra er öruggur.
Viðamikill þáttur í uppbyggingarstarfi fyrir fjölskyldur í veiðimannasamfélögunum á Suður-Indlandi, er að útvega þeim veiðarfæri og báta. Gert er ráð fyrir því að keyptir verði a.m.k. 100 bátar og munu 10-12 fjölskyldur deila með sér bát samkvæmt venju. Ef kall berst eftir fleiri bátum verður því svarað.
2. Endurfundir
Allt að 10.000 börn sem eru á vergangi fá húsaskjól, fatnað og aðra daglega aðstoð auk þess sem gerð er markviss leit af fjölskyldum þeirra. Þar sem ekki er hægt að finna fjölskyldur verður börnunum veitt langvarandi heimilisöryggi í SOS-barnaþorpi.
3. SOS-barnaþorp - langvarandi hjálp
Munaðarlaus börn eftir náttúruhamfarirnar skipta þúsundum. Á Sri Lanka er staðfest að byggja á nýtt SOS-barnaþorp, það sjötta í landinu. Gríðarleg þörf er á nýju SOS-barnaþorpi á Indónesíu en til þess þarf samþykki stjórnvalda. Til að byrja með er börnum komið fyrir í þeim barnaþorpum sem fyrir eru og nýjum SOS-verkefnum komið á. Þau barnaþorp sem fyrir eru á Indlandi verða stækkuð, þ.e. fjölskylduhúsum bætt við. Á Tælandi taka SOS-barnaþorpin á móti munaðarlausum börnum í þeim barnaþorpum sem fyrir eru. Alls eru 16 barnaþorp á Sri Lanka, Tælandi og Indónesíu og 7 á flóðbylgjusvæðunum á Indlandi þó svo að í það heila séu 35 SOS-barnaþorp þar í landi.
Slóð: https://www.mbl.is//mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1119866
Skoðað: 2005-01-11 11:41
© mbl.is/Árvakur hf
© mbl.is/Árvakur hf, 2005