UNICEF starfar í öllum þeim löndum sem urðu verst úti í hamförunum og gat því strax hafið víðtæka neyðaraðstoð. UNICEF telur að a.m.k. einn þriðji hinna látnu hafi verið börn og að yfir 1,5 milljón barna séu nú hjálparþurfi. UNICEF gerir allt til að tryggja að þörfum barna sé mætt og að sú kynslóð sem lenti í hamförunum muni fá þá aðstoð sem á þarf að halda. UNICEF skipuleggur alla sína neyðaraðstoð með langtímaskuldbindingu í huga.
UNICEF eru stærstu barnahjálparsamtök í heimi með starfsemi í um 160 löndum og hafa nær 60 ára reynslu af neyðar- og þróunaraðstoð. Til að ná markmiðum sínum vinnur UNICEF náið með öðrum alþjóðlegum hjálparstofnunum, stjórnvöldum, frjálsum félagasamtökum og samfélögunum sjálfum við að koma hjálpargögnum fljótt til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. Neyðarstarf UNICEF á flóðasvæðunum felst aðallega í þremur eftirfarandi þáttum, þ.e. vatni og hreinlæti, heilsu og næringu, ásamt vernd og fræðslu.
1. Vatn og hreinlæti
Helsta forgangsverkefni í hamförum sem þessum er að veita fólki hreint drykkjarvatn og koma í veg fyrir að sjúkdómar breiðist út. UNICEF veitir:
- saltupplausnir til að koma í veg fyrir ofþornun vegna niðurgangs;
- hreinlætiskassa - einn slíkur kassi veitir 10 fjölskyldum vatnshreinsitöflur, sápur, bala og fleira;
- vatnsgeymslutanka sem geyma vatnsforða fyrir samfélög og fjölskyldur;
- hreint vatn í tönkum og vatnsdælur fyrir brunna, ásamt því að endurbyggja vatnsveitukerfi;
- hreinlætisaðstöðu og fræðslu um hreinlæti á máli innfæddra;
- þjálfað starfsfólk til að hjálpa ríkisstjórnum að meta þarfir fólks og bregðast skjótt við þeim.
2. Heilsa og næring
Fátæk börn á hamfarasvæðunum eiga þegar í mikilli hættu á vannæringu, sýkingum og smitsjúkdómum. UNICEF veitir:
- neyðargögn, eins og ábreiður og tjöld;
- bóluefni gegn mislingum og öðrum sjúkdómum;
- nálar, sýklalyf, lyf, sótthreinsiefni og kælibox til að geyma bóluefni;
- moskítónet og lyf við malaríu þar sem við á;
- prótínkex og aðrar næringarríkar vörur, ásamt A-vítamíni til að bæta ónæmiskerfið;
- mæðraeftirlit og aðstoð til nýbakaðra mæðra;
- þjálfun til starfsfólks á sviði heilsugæslu og fræðslu til almennings um heilsufar.
3. Vernd og fræðsla
Hamfarirnar síðustu daga hafa eyðilagt líf barna. Mörg þeirra hafa misst fjölskyldumeðlim, skólar eru eyðilagðir og margir kennarar látnir. Börn þarfnast öryggis og lífs sem er í föstum skorðum. UNICEF sér um að:
- bera kennsl á, skrá og veita heilsugæslu til þeirra barna sem hafa orðið viðskila við fjölskyldu sína. Í Aceh-héraði hafa t.a.m. verið opnaðar fimm skrásetningarmiðstöðvar fyrir börn og áætlað er að opna 15 á næstu dögum;
- búa til kerfi með samstarfsaðilum sem gerir fjölskyldum kleift að finna börn sín;
- tryggja að börnum sé ekki rænt, þ.e. fylgjast með flugvöllum og höfnum, og aðstoða lögreglu og yfirvöld til að tryggja öryggi barna;
- veita stuðning í formi skjóls, verndar og umhyggju barna sem eru ein;
- veita börnum sálræna aðstoð, leikföng og skipuleggja starfsemi fyrir þau;
- koma upp tímabundnum skólastofum og útvega skólagögn;
- endurbyggja skóla og þjálfa kennara.