Karen Axelsdóttir - haus
30. apríl 2010

Synt í náttúrunni

p1010772.jpg

Ég man ég horfði oft á  sjósundsgarpa í fréttum og hugsaði til þess með hryllingi hvað aumingjas fólkið væri að vesenast úti á rúmsjó syndandi milli fjarða og eyja. Ruglað lið! Í dag er ég dauðöfundssjúk útí sundmenn sem búa í Reykjavík, umkringdir 50 m sundlaugum og tærum sjó. Í sjónum upplifirðu ótrúlega sterk tengsl við náttúruna líkt og fjallgöngumaður gerir uppá fjallstoppi og fyrir lengra komna eru öldur og straumar bara til að krydda þetta. 

Í dag færum við sundæfingarnar í nálæg stöðuvötn. Erlendis fer þríþrautarkeppni nánast alltaf fram í sjó, stöðuvatni eða í á og ef hitastigið er undir 22 gráðum þá er keppt í blautbúning. Á flestum mótum hér í UK er meira að segja skylda að vera í blautbúning af öryggisaðstæðum. Ótrúlegt en satt þá er þrjú stöðuvötn rétt við Heathrow flugvöll þar sem hægt er að stunda vatnaíþróttir og sund. Hitastigið er skv vefsíðu þeirra það lægsta frá upphafi eða 12 gráður. Ég yfirkuldaskræfan fæ smá hroll en skelli mér bara í blautbúning. Mér verður hugsað til sjósundskappanna heima. Það er fólk sem ég tek ofan fyrir. Margir hverjir synda allt árið um kring í Nauthólsvík og fæstir eru í blautbúning. Ég hef synt nokkrum sinnum í Nauthólsvíkinni þegar ég hef verið heima á sumrin og get sagt að aðstaðan þar er afbragð og alls ekki of kalt. Eina sem vantar fyrir sundfólk eru fleiri baugjur til að maður viti nákvæmlega vegalengdina. Ekki skemmir fyrir að það er ókeypis að synda í sjónum og svo bíða  tveir heitir pottar og góður félagsskapur. Þvílíkur lúxus og allt ókeypis (við keyrum í 25 mín aðra leið hér í UK og borgum 1000 kr ). Kíkið á http://www.nautholsvik.is/desktopdefault.aspx/tabid-139/

Það er allt öðruvísi að synda í náttúrunni heldur en í sundlaug. Þú sérð oftast ekki í botninn og það er erfitt að sjá til átta og krefst það smá tækni að læra það. Flest fólk er með fælni við að sjá ekki í botninn og í byrjun var það líka mitt aðaláhyggjuefni. Það tekur örfá skipti að komast yfir það og um leið og þú nærð ágætis tökum á skriðsundinu þá ertu einungis að hugsa um að halda í félagana, synda settið þitt og njóta þess að vera til. Sjálf ætla ég að halda áfram að synda í blautbúning og leyfa öðrum að sjá um hetjuskapinn. Það er fjárfesting að kaupa blautbúning en mundu að allt annað er ókeypis!