Karen Axelsdóttir - haus
4. maí 2010

Snör handtök en enginn brussugangur

Hér eru nokkur atriði sem munu stytta hjá þér skiptitímann.

Ég set olíu á úlnliði og ökkla til að vera fljótari úr blautbúningnum. Á meðan ég er að hlaupa uppúr  og inná skiptivæðið þá klæði ég mig úr gallanum að ofan og tek af mér sundgleraugun og sundhettuna. Ég er í heilgalla undir blautbúning  sem ég get bæði hjólað og hlaupið í og syndi með númerabeltið undir blautbúningnum. 

Ef keppt er í sundlaug þá syndi ég í heilgalla sem ég hjóla og hleyp í líka en passa að hann sé vel þröngur svo hann hægi ekki á mér í sundinu. Þú getur líka keppt í sundgalla (knee skin).  Í Nesþrautinni þarftu sennilega að klæða þig í bol eftir sundið. Þú getur fest númerið á bolinn fyrirfram. Það er auðveldara að klæða sig í dry fit bol en bómullarbol og passaðu líka að hann sé ekki of þröngur þar sem það er erfitt að komast í þrönga flík ef maður er rennblautur.

Ekki eyða tíma í að þurrka þér. Ég  eyði heldur ekki tíma í að klæða mig í sokka heldur er berfætt  bæði á hjólinu og hlaupinu. Ef hlaupið í keppninni  er hálf maraþon eða lengra en þá fer ég í sokka til að fá ekki hælsæri. Ef það er kalt þá nota ég gamla neopren hjólaskó sem ég er búin að klippa hælinn af og smeygi  yfir hálfan skóinn til að halda hita á fótunum .

 transitionÉg skil hjálminn eftir með opnar festingar og sný honum þannig að ég get skellt honum beint á höfuðið. Er búin að festa hjólaskóna á hjólið með teygju og klæði mig ekki í þá fyrr en ég er komin á fulla ferð (byrjendur sleppa þessu og klæða sig í skó á skiptisvæðinu ). Teipa sólgleraugu  og orku gel fyrir keppni við hjólið svo enginn tími fari í að taka það til.  

Ég klæði mig úr hjólaskónum á ferð ca 200- 300 m áður en ég fer af hjólinu og hjóla berfætt ofan á þeim restina. Skil hjólaskóna eftir á hjólinu og hleyp berfætt  inn á skiptisvæðið (hleypur mun hraðar svoleiðis en í hjólaskóm).  Nota teygjureimar á hlaupaskónum til að þurfa ekki að reima en bara það eitt spara þér 15-30 sek.

Æfðu þessi atriði heima t.d í götunni og leyfðu nágrananum bara að hlæja, þú munt þakka mér þegar á hólminn er komið fyrir þessi ráð.  Mundu  ,,snör handtök en enginn brussugangur".