Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Kvef og æfingar
5. maí 2010

Kvef og æfingar

Sæl Karen. Hvað gerir þú þegar þú færð kvef, slím í lungun og þannig? Ég er með þetta núna, maður getur ekki neitt og ég verð móður um leið.    Þumalputtaregla er að ef einkennin eru fyrir ofan háls og þér líður ágætlega þá er allt í lagi að æfa ef þú  minnkar álagið t.d forðast sprettæfingar og erfiðar lyftingar. Hins vegar ef einkennin eru fyrir neðan háls t.d hósti eða önnur eymsli í brjóstkassa þá áttu að sleppa æfingum alveg. Ekki blekkja sjálfan þig með nefdropum, verkjatöflum eða sýklalyfjum ( sem virka ekki á veirur ). Þú gerir þér engan greiða með því að æfa þegar þér líður ekki vel og það er miklu betra að hrista kvefið af sér á einni viku og sleppa nokkrum æfingum í stað þess að hafa þetta hangandi yfir þér í nokkrar vikur. Venjulegt fólk hugsar kanski ,,fínt nú get ég slappað af í nokkra daga" en fyrir atvinnumenn og aðra forfallna þá er þetta eins og skipsbrot .

coldÉg fékk heldur betur að kynnast þessu í febrúar 2007.  Á þessum tíma var ég tiltölulega nýbyrjuð að æfa mikið og líkaminn því enn að venjast auknu álagi sem það er að æfa 10-12 tíma á viku í stað 2-4 tíma. Ég var alveg heltekinn af keppnisárangrinum og missti nánast aldrei úr æfingu. Ég fékk slæmt kvef og hélt áfram að æfa nánast óbreytt . Það sem blekkti mig var að í hvert skipti sem ég fór á æfingu þá leið mér mun betur (æðarnar víkka + adrenalín) og ég tengdi æfingarnar  því ekkert sérstaklega við það að ég væri ekkert að lagast. Ég var hóstandi í um 3 vikur og varð smám  saman verri eða þangað til líkaminn hreinlega hrundi.   Niðurstaðan var  lungnabólga  sem kostaði mig 6 vikur í rúminu og tæpa þrjá mánuði frá æfingum. Þetta var óskemmtileg lífsreynsla og fólk með öndunarfærasjúkdóma á eftir þetta svo sannarlega alla mína samúð. Þrátt fyrir alla þessa mánuði frá þá var ég ótrúlega fljót að koma til og þetta kenndi mér að þú missir ekki eins mikið niður og þú heldur. Nokkrar æfingar eða dagar til eða frá skipta engu máli. Í dag er ég þakklát fyrir þessa reynslu og þetta losaði mig við æfingaþráhyggju (eða svona næstum því :-)

 Ef ég er kvefuð en nógu hress til að æfa þá held ég mig þá að mestu við léttar hjóla æfingar heima fyrir (set hjólið mitt á turbo þjálfa ) og kem ekki nálægt lauginni eða líkamsræktarstöðvum, þó ekki sé nema af kurteisi  að smita ekki aðra. Ef þú ert alveg frá notaðu þá tímann til að lesa þig til og horfa á myndbrot sem hjálpa þér varðandi tækni, leiklesni og keppnistaktík. Slíkt heimanám er á við margar æfingar og að mínu mati mjög vanræktur þáttur.