Karen Axelsdóttir - haus
6. maí 2010

Ný "recovery" lausn?

Í gegnum árin hefur það verið mikið gleðiefni hjá vinkonunum þegar þeim tekst að draga mig í aerobik tíma eða eitthvað álíka þar sem ég er oftast svona 5 sekúndum eftir öðrum í sporunum. Ég læt þetta auðvitað bara gerast á nokkurra ára fresti enda fæ ég að heyra þær rifja upp ófarir mínar við regluleg tilefni og dynjandi hlátursköll.

bikramÉg ákvað að brjóta reglununa  og prófa með vinkonu minni þetta umtalaða "Hot Yoga"  í hádeginu í dag. Munurinn á hot jóga og venjulegu hatha jóga er að hitastigið í herberginu er rúmlega 40 gráður sem þýðir að allar stöður eru framkvæmdar aðeins hægar (annars færðu aðsvif ) og þú þarft að einbeita þér mun meira að önduninni því annars færðu aðsvif (ég spurði konuna). Sem sagt tíminn var ekki byrjaður og ég vissi allt um það hvernig það ber að forðast aðsvif og yfirlið. Ég hugsaði fjandinn hafi það fyrst ég komst í gegnum Ironmanið í rúmlega 30 gráður hita í og steikjandi sól þá hlít ég verða í lagi. Við vorum mættar um 10 mín fyrr til að ná plássi og  vá hvað það var heitt.  Það kraumaði svoleiðis í hitaofninum og inn týndist hver bikini spíran að fætur annarri. Ég svitna almennt mjög lítið en það var farið að leka af mér (af stressi) við það það eitt að liggja þarna hreyfingarlaus í 10 mínútur. Svo byrjaði ballið. Svakalegar öndunaræfingar þar sem liðið svoleiðis stundi og ranghvolfdi augunum í takt. Ég var eins og álfur út á hól en það vildi mér til happs að það voru fjórir aðrir nýliðar sem voru lítið skárri. Svo byrjuðu styrktaræfingarnar. Sem betur fer hefur mikið vatn runnið til sjávar varðandi líkamlegan styrk minn og fyrri aerobik tíma og því þar var ég á heimavelli.. Ég dauðvorkenni hinum byrjendunum en þau steinlágu á gólfinu og gátu sig varla hreyft hálfan tímann.  Kennarinn skellti yfir þau blautu handklæði og sagði að í næsta tíma yrðu þau fín...einmitt! Þetta var í sjálfu sér alveg stórmerkilegt og rétt eins og konan sagði ef maður andar ekki með nefinu eða slakar ekki á þá færðu aðsvif. Vegna hitans þá gat ég yfirstirðbusinn allt í einu snert á mér tærnar og fótleggirnir sem voru eins og rafmagnskaplar í morgun voru allt í einu í toppstandi eftir tímann. Þvílík snilld nú er ég kanski búin að uppgötva nýja töfralausn til að halda mér ferskri og hindra meiðsli. Ég fór svo á hjólaæfingu fyrr í kvöld og gjörsamlega tætti liðið í mig, en við vorum í mjög erfiðum æfingum síðustu 2 daga þannig að þjálfarinn var orðlaus yfir því hvað ég var eiturhress. Allavega ég er spennt að prófa þetta aftur og kanski maður endurnýi bara bikinið fyrir næsta tíma.