Karen Axelsdóttir - haus
9. maí 2010

Mótaröðin er byrjuð

Í dag var keppni í London League mótaröðinni. Þar er keppt á nokkrum mótum yfir keppnistímabilið í þríþraut, tvíþraut og Aquathlon (sund og hlaup ). Þessi mót skipta talsvert miklu máli þar allir sterkustu íþróttamennirnir úr yfir 20 liðum koma saman og mikið í húfi varðandi styrki og verðlaun.  Í dag var keppt í Aquathlon og var vegalengdin 600 m sund og 9.6 km hlaup2010 MaiLondon 123. Ég er aðal stiga gjafinn í liðinu á þríþrautarmótum en aquathlon er mín veikasta hlið. Þar er vinkona mín Gill sem er atvinnukona og keppir fyrir Suður-Afríku fremst í flokki.Eftir alla þessa mánuði sem ég missti úr hlaupaþjálfun var ég ekki með miklar  væntingar fyrir þetta mót. Ég stóð mig vel  í fyrra en kveið pínu að þurfa að horfast í augu hve mikið mér hefur farið aftur því hlaupaæfingarnar undanfarnar 2 vikur hafa verið erfiðar þar sem ég held ekki  lengur í þá sem ég hljóp alltaf með.

Sundið gekk sæmilega en tíminn minn var 9:52 með skiptitíma við að fara uppúr, hlaupa út úr húsinu og í hlaupaskóna. Ég hljóp þessa 9,6 km á 37:35 í fyrra og var því búin að reikna út að ég yrði að hlaupa hvern hring eða 2,4 km á 9:24 til að halda því.  Fínt markmið til að halda mér á bensíngjöfinni. Þetta var í fyrsta skipti í 7 mánuði þar sem ég fann ekki til í hnénu. Ég var svo himinlifandi að finna ekkert til að það var eins og túrbína hefði farið  í gang. Ég hljóp hvern hringinn á eftir öðrum hraðari og hlaupatíminn var 36:22 eða meira en mínútu hraðar (1:13) en í fyrra. Það er fín bæting en þú verður alltaf að bera saman sömu velli og veðurfar til að sjá raunverulegar framfarir. Þetta dugði mér í þriðja sætið í heildina í kvennaflokki og get ég vel við unað á þessu  sterka móti. Gill sló vallarmet kvenna, synti og skipti á  8:46 og hljóp á 34:50. Sigurvegari karla sem er einnig atvinnumaður synti á 7:19 og  hljóp á 31:18.

Spurningin er hvernig í ósköpunum getur verið að ég hljóp hraðar en fyrir ári síðan (þá í ágætis hlaupaformi ) eftir alla þessa mánuði frá hlaupaæfingum ? Þetta sannar amk fyrir mér að það er hægt að gera ótrúlega mikið með því að auka aðrar æfingar þ.e hjóla, hlaupa í laug og gera styrktaræfingar. Þannig þið þarna úti sem eruð meidd munið...EKKI GEFAST UPP.