Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Spurning um öndun
10. maí 2010

Spurning um öndun

Sæl Karen. Ég hef verið að hlaupa nokkuð reglulega frá því síðasta haust og er undirbúa mig fyrir Laugavegshlaupið.  Hef verið að velta nokkrum atriðum fyrir mér varðandi öndun. Í upphafi hlaups reyni ég að anda með nefinu, einhver sagði mér að gæti maður það þá væri það merki um að maður væri ekki að ofkeyra sig. En við aukna áreynslu þá þarf ég alltaf að skipta yfir og anda með munninum til að fá nóg súrefni.  Finnst þér þetta skipta einhverju máli? Ég á erfitt með að venja mig á þetta. Hvað er best að gera við því?   Ég þekki ekki alveg rannsóknir sem liggja á bakvið neföndun og æfingar en get sagt þér að ég anda á hlaupa og hjólaæfingum  og í keppni eingöngu inn í gegnum nefið og út í gegnum munninn. Með því að anda í inní gegnum nefið finnst mér ég ná miklu dýpri öndun og næ líka að slaka betur á. Ég var  að fylgjast með hjólreiðakonu í morgun sem var í VO2 Max prófi. Þegar ég sá spurningu þína  fór ég að fikta við tæki þarna sem mælir súrefnismettun í blóði. Þegar ég andaði venjulega var mettnunin 98% en þegar ég andaði inn með nefinu hægt og djúpt og stýrði útöndun í gegnum munn þá var hún föst í 99% og poppaði uppí 100% við lok innöndunar. Tilviljun? Þetta er allt spurning um súrefni, þannig ef þú getur aukið súrefnisupptöku með réttari öndun þá er ekki spurning að gera það.         

Mörgum finnst erfitt að venjast því að anda inn um nefið og niður í kviðarhol. Það tekur tíma að venja sig á það en köfnunartilfinningin er aðallega að því að þú ert ekki alveg slakur og andar ekki nógu djúpt. Þegar þú ofreynir þig þá ertu ekki slakur og getur ekki einbeitt þér að anda inn um nefið þannig ég er sammála þeim sem benti þér á ofreynsluþáttinn í spurningu þinni.  Ef þú villt flýta verulega fyrir lærdómsferlinu þá geturðu kíkt í nokkra jóga tíma (grínlaust). Æfðu þig dags daglega þegar þú mannst en þeim meira sem þú gerir þetta þeim auðveldar verður það á æfingu. Löngu hlaupaæfingarnar eru góðar til að æfa öndunina því þá er hraðinn ekki mikill og auðveldara að halda einbeitingu. Ef það gengur illa þá geturðu prófað að hægja aðeins á þér.  Reyndu að smám saman auka tímann sem þú gerir þetta og áður en þú veist af þú ertu farin að gera þetta ósjálfrátt og þvílíkur munur. Þú munt sérstaklega finna mun við það að æfa í köldu veðri og losnar endanlega við "kalt í lungunum" tilfinninguna.