Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Fyrstu fótsporin
12. maí 2010

Fyrstu fótsporin

k_pavogs_r_rautMargir eru að feta fín fyrstu fótspor í stuttri þríþraut sem fer fram í Kópavogslaug kl 9:30 núna á sunnudaginn. Vegalendirnar eru afar byrjendavænar eða sund 400 metrar,  hjól 10,4 km og hlaup 2,5 km þannig ef þig hefur einhvern tíman langað að prófa en óttast vegalendirnar þá er þetta frábært tækifæri. Ég hef fengið nokkra pósta þar sem fólk er að spyrja mig nánar útí fyrirkomulagið, í hverju á að keppa  ofl. Ég fór í sams konar þraut í nesinu fyrir 2 árum og geri ráð fyrir að fyrirkomulagið sé ekki ósvipað.  Við vorum minnir mig fjögur í hverri braut, ræst með 5 sek millibili. Fyrstur sá sem er með besta tímann þ.e ef þú veist ca. sundtímann þinn. Þú þarft að telja ferðirnar en sem betur fer eru þeir með aðstoðarmenn sem láta þig vita þegar tvær ferðir eru eftir.

Male-Remix-JammerVenjulega keppi ég þröngum í heilgalla sem ég syndi í líka ef keppt er í sundlaug. Ef þú átt ekki þröngan heilgalla þá myndi ég synda í þröngum hnésíðum stuttbuxum (sjá mynd) og klæða mig í bol eftir sundið. Konur geta gert það sama og eru bara í sundbolnum innan undir.  Slepptu víðu boxer buxunum því þær hægja verulega á þér bæði í lauginni og á hjólinu. Um leið og þú ert búin í sundinu þá hendirðu þér upp úr og hleypur að hjólinu. Eins hratt of þú getur! Árið sem ég var með í þessu var hávaða rok og skítkalt þannig ég endaði með því að klæða mig í síðermahlaupabol til að krókna ekki á hjólinu. Athugaðu að það er frekar erfitt að klæða sig í rennblautur og það límist allt við þig þannig ekki hafa bolinn alltof þröngan (dry fit efni best). Ef þú klæðir þig í bol þá skaltu festa númerið á bolinn fyrir keppni og sleppa því að nota svokallað númera belti. Þú hjólar og hleypur í sömu buxum og þú syntir í  og ekki eyða tíma í að klæða þig í  sokka. Ef þú ert byrjandi þá skaltu bara klæða þig í skó transition og ekki hafa áhyggjur af því að gera það á ferð líkt og ég geri. Þú getur skellt smá barnapúðri í skóna til að þeir haldist þurrari og auðveldar sé að klæða sig í þá. Ef þú átt ekki teygjureimar geturðu t.d. notað venjulega teygju eins og við stelpurnar notuðum í teygjó í gamla daga og fæst í öllum saumabúðum. Þræðir skóinn með teygjunni eins og venjulegar reimar, klæðir þig í þá, bindir reipihnút í passlegri vídd og klippir.       

Varðandi hraðann þá er vegalengdin það stutt að allir lengra komnir eiga að kýla á það og ekki halda aftur að sér nema kanski rétt undir lokin á hjólinu og fyrstu metrana á hlaupinu til að hreinsa lappirnar af mjólkursýru möo. þetta er sprettþraut sem þýðir að til að vinna þetta þá þarftu að vera með bensíngjöfina í botni og hreinlega slefa í mark. Vegalengdin er það stutt að sennilega myndi ég bara drekka aðeins og ekki fá mér neitt orkugel  þar sem líkaminn nær rétt  að brjóta það niður áður en allt er yfirstaðið. Ef þú ert byrjandi þá gilda allt aðrar reglur. Þú  skalt synda (8 ferðir) og  hjóla hringina (3) frekar jafnt og ekki fara mikið fram úr þér mv. hvað þú ert vön/vanur að gera á æfingum.  Ef þú færð mikla brunatilfinningu í lærin þá ertu í of þungum gír sem mun gera þér erfitt fyrir á hlaupinu. Síðasta kílómeterinn skaltu setja í aðeins léttari gír og reyndu að spinna meira (í kringum 100 rpm) til að undirbúa þig fyrir hlaupið. Ekki gleyma að setja hjólið fyrst á réttan stað áður en þú rífur af þér hjálminn en erlendis færðu 2 mín sekt fyrir svoleiðis og því ágætt að venja sig á reglurnar strax. Hlauptu lítil hröð skref  til að byrja með og gefðu þér 200-300 m  metra til að komast í betri gír. Það finnst öllum erfitt að hlaupa eftir hjólalegginn og þú ert ekki sá eini/eina sem finnur varla fyrir fótunum eða líður eins og þú sért með blý í báðum skóm. Ekki örvænta því eftir 6-7 mín líður flestum mun betur. Síðustu 1-2 km er bara að taka á því og koma sjálfum sér á óvart. Mundu að þú stjórnar hvað þú gerir þér erfitt fyrir og ef þú ert að keppa í fyrsta sinn þá skaltu bara njóta þess og ekki vera að spá í aðra eða í hvað sæti þú lendir. Góða skemmtun og gangi ykkur vel. Sjá nánari upplýsingar og skráningu á http://www.hlaup.com/