Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Aumir bossar
31. maí 2010

Aumir bossar

Flestir sem prófa hjólreiðar í fyrsta skipti kvarta yfir aumimdum í rassi.  Meira að segja þaulvanir hjólamenn  lenda í þessu af og til, sérstaklega ef   hjólað er lengur en venjulega eða efhjólað er samfellt marga daga í röð. Góðu fréttirnar eru að  ef þú velur hnakk sem passar fyrir þig,  notar púðabuxur og sýnir smá fyrirhyggju þá tilheyrir þetta vandamál sögunni. Hér eru nokkur atriði sem hafa gagnast mér.

Vertu í púðabuxum- skyldbúnaður ef þú spyrð mig.  Gore, Pearl Zumi og Assos finnst mér vera þægilegustu merkin. Ekki vera í  g-streng nærfötum eða nærfötum úr blúndu eða öðru gerviefni sem nuddast óþægilega við húðina. Lykilatriði er að vera alltaf í hreinum hjólabuxum.

Ef þér hættir tilað fá núningssærindi prófaðu þá aðnota vaselín eða Chamois cream sem fæst í betri hjólreiðaverslunum og settu kremið á þig fyrirfram.

Sumir hnakkar eru hreint og beint óþægilegir og ef þú ert ekki farin að venjast hnakknum eftir 3-4  vikur þá myndi ég skoða það að skipta um hnakk.

Vertu viss um að sætið sé ekki of hátt. Góð þumalputtarelga er að hællinn á að snerta pedalann  þegar pedalinn er í lægstu stöðu.

Þegar ég fer í  æfingaferðir tek ég stundum með mér gelpúða en þá er t.d hægt að fá á Amazon fyrir 7 pund. Félagarnir hlæja þá í byrjun og ég fæ "prinsessan á bauninni stimpil" en  það  snýst uppí öfund á 4-5 degi þegar allir nema ég eru að drepast í rassinum.Ef þú notar gelpúða þá verðurðu að muna að lækka sætið sem nemur púðanum.

Ef  þú ert í  nokkurra daga hjólaferð, reyndu þá að skipta um buxur yfir daginn ef tök eru á sérstaklega ef þú svitnar í þeim eða ef þú lendir í rigningu en blautar buxur eru fljótar að valda núningi með tilheyrandi eymslum.

Stattu upp í klifurstöðu af og til en það dreifir álaginu og jafnar blóðstreymi um svæðið.

Þegar heim er komið, farðu alltaf strax úr buxunum og í sturtu en eins og segir blautar buxur valda núningi.

Ef þú ert í margra daga ferð og ert svo óheppinn að vera bólginn eða sár þá hjálpar að kæla svæðið á kvöldin, þerra vel,  bera á t.d AD krem og taka íbúfen.