Karen Axelsdóttir - haus
10. júní 2010

Vöðvatröll í sparikjól

Ég er að fara í brúðkaup um helgina sem er  ekki í frásögur færandi nema hvað ég þurfti auðvitað redda mér sparikjól. Það  besta við að búa í Bretlandi er að Bretar eru upp til hópa algjörlega  smekklausir og ég kemst upp með að vera í gömlu druslunum mínum og þyki bara  helvíti fín. Skrítið hvað áhuginn  breytist en áður  en ég byrjaði í sportinu þá fannst mér fátt skemmtilegaen að eyða pening í tuskubúðum. Í dag finnst mér það hálfgjör kvöð og þarf  nánast að fara á blikkandi ljósum og redda málunum þegar upp koma sérstök  tilefni.

Aumingja maðurinn minn sem giftist þessarri  annars kvenlegu vel klæddu konu situr nú dags daglega uppi með vöðvabúnt í  jogging galla. Það er heldur ekki eins og ég sé neitt ódýrari í rekstri því  almennilegar hjólagræjur kosta meira en tískufatnaður.

Allavega, ég var svo heppin að það var  seinkun á vélinni þannig ég gat tekið Íslendinginn á þetta og reddað þessu á  elleftu stundu. En þá kom babb í bátinn. Ég leit út eins og álfur út úr hól í  hverjum einasta sparikjól sem ég mátaði. Þó ég sé ekki með fituörðu utan á mér  þá var þetta var einhver veginn ekki að gera sig að vera með útstandandi sundaxlir,  lærvöðva sem minna á rafmangskapla og kálfa á stærð við handbolta. Ég stóð mig  að því að leita af kjól sem myndi fita mig aðeins, hylja kálfana og draga úr  því að sýna upphandleggsvöðva. Afgreiðuslukonan brosti yfir þessari leit minni  að pokakjól og benti mér  á að fyrir  flestar konur væri vandamálið öfugt og að ég væri eitthvað skrítin. Furðulegt  hvað maður er aldrei   ánægður með sjálfan sig. Erum við konur kannski aldrei  ánægðar með okkur? Loks ákvað ég að hætta þessari vitleysu og kaupa bara kjól  sem væri sumarlegur og flaggar byssunum í öllu sínu veldi.