Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Hvíldarvika
16. júní 2010

Hvíldarvika

Það voru margir  sem komu af fjöllum þegar ég minntist á hvíldarviku í gær. Í úthaldsíþróttum og  mörgum íþróttagreinum eru æfingaprógröm  byggð upp þannig að þú eykur   æfingaálag um tæp 10% milli vikna og minnkar svo niður í 60-70% fjórðu  vikuna til að leyfa líkamanum að jafna sig og  hvíla hugann. Dæmi um þetta er að hjóla  10 km viku fyrstu vikuna, 11 km viku 2 og 12 km í viku 3. Fjórðu vikuna  hopparðu svo niður í 8-9 km og jafnvel minna ef þú ert þreyttur. Byrjar svo  hringinn aftur á mitt á milli þess sem þú gerðir í viku 2-3 þ.e 11.5 og svo  koll af kolli. Þetta er aðeins flóknara ef þú ert að púsla saman 2-3 íþróttagreinum  en reglan er sú sama. Það er ekki heilagt hvort hringurinn sé 3 vikur, 4 vikur eða 6-7. Þú lærir með tímanum hvað virkar fyrir þig  en ég tók hér 4 vikna hring sem dæmi því það er það sem ég geri í mínum æfingum. 

Þó ég sé að mati flestra ofvirk  með æfingaáráttu á háu stigi þá elska ég hvíldarvikur. Í viku 3 er eðlilegt að maður sé orðin  frekar úrvinda og þá er oft erfitt að rífa sig upp á morgnana. Það sem heldur  mér gangandi þá er að ég veit að vikan á eftir er auðveld og ég get  skipulagt að  hitta vini, farið út úr bænum án þess að taka með hjólið osfrv.  Í lok hvíldarviku  er þetta svo oftast öfugt og ég get ekki beðið eftir að hleypa skrímslinu út! Ég sit ekki með excel reikni og reikna hvort ég sé að gera 40% eða 70% minna heldur spila þetta eftir eyranu en þegar ég horfi til baka þá sé ég að meðaltalið hjá mér hefur verið 65% minni æfingar í hvíldarviku.

Margt keppnisfólk æfir ekki svona heldur gerir  flestar æfingar í gráa zoninu eins og ég kalla það þ.e hefur nánast allar æfingarnar  erfiðar. Ekki nóg með það heldur eru vikurnar oftast  allar eins. Ég myndi ekki endast nema nokkrar vikur svoleiðis! Ef þú  brýtur  þetta upp með auðveldum og erfiðum  æfingum á víxl og tekur svo hvíldarviku þá get ég lofað þér að þú nærð betri  árangri, þú færð ekki leiða og þú minnkar líkurnar á meiðslum gríðarlega.

Ef þig hlakkar  ekki til að fá hvíldarviku þá ertu einfaldlega ekki að taka nóg á því á "erfiðu"æfingunum nema þú sért svo heppin/n að vera genetískt viðundur sem jafnar þig betur en annað fólk á milli æfinga. Ef þú ert að byrja þá verðurðu að vera þolinmóð/ur ef þér finnstprógrammið auðvelt í byrjun.... það skríður upp hraðar en þig grunar  þannig reyndu að freistast  ekki til að  fara yfir 10% regluna.