Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Ofurkonan óskast
18. júní 2010

Ofurkonan óskast

Á morgun er úrtökumót fyrir heimsmeistaramótið sem haldið verður í Búdepest í September. Ég er búin að hlakka mikið til því þarna verða margir stórlaxar t.d núverandi heimsmeistari í tvíþraut (hlaup-hjól)...eins gott að hún sé ekki góð í sundi líka og svo allar bestu stelpurnar hér í UK. Völlurinn hentar mér líka vel en  hjólabrautin er 42 km og hæðótt þannig að ég hef meiri tíma til að ná helstu höfrungunum. Ekki nóg með það ég er komin með nýtt vopn frá Giant með hjálp frá gamla góða sponsornum (sjá mynd..skrítið að hann brosi m.v. allan kostnaðinn :-). 2010 JuniUK 103Vandamálið er að ég held ég hafi klárað tankinn um daginn og sett punktinn fyir i-ið með þessari Íslandsheimsókn minni um síðustu helgi. Ég er búin að æfa afar stíft og eftir breska meistaramótið var skipunin að æfa áfram í 5 daga sem er hrikalegt álag þegar maður er dauðþreyttur fyrir en taka svo rólega helgi. Þessi rólega helgi hjá mér saman stóð af háskóla reunioni fram eftir nóttu á föstudegi, brúðkaup fram eftir nóttu á laugardegi og 57 km fjallahjólamót á sunnudegi. Sem sagt mikil keyrsla, nánast engin svefn og flugferðir sem eru þekktur pestavaldur ef ónæmiskerfið hjá manni er í svona ástandi. Á mánudaginn var ég í merkilega góðu formi og var farin að halda að ég væri bara ofurkona og ekkert gæti bitið mig. Ég vaknaði svo á þriðjudaginn öll marin og aum eftir allar bylturnar á fjallahjólinu og með hálsbólgu og beinverki í bónus.

 

Hversu heimsk get ég verið?  Ég veit manna best að það kemur alltaf að skuldadögum og ég á að vita bara með því að horfa á prógramið hvenær eitthvað er of mikið óháð því hvernig mér líður. Allavega ég er frekar pirruð út í sjálfa mig í dag og stend nú frammi fyrir því að ákveða hvort ég eigi að draga mig í hlé á morgun eða keppa. Ég er ekki veik en finn ég er alls ekki 100%. Það eru bara 2 vikur í Evrópumótið þannig ég hef ekki innistæðu til að taka aðra viku í bælinu en hins vegar er þetta mikilvægt mót og yrði afleitt ef ég mæti ekki eða tryggi mér ekki í pláss fyrir HM. Ætli ákvörðunin verði ekki að koma mér á staðinn í kvöld og taka svo blákalt mat í fyrramálið. Vonandi vaknar ofurkonan aftur til lífsins á morgun...plííís!