Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Taka hjólið með?
24. júní 2010

Taka hjólið með?

Sæl Karen, ég bý á austurströnd  USA og er að fara að taka þátt í þríþraut í Kaliforníu . Ég er að spá hvort ég eigi að taka hjólið mitt með flugleiðis eða leigja mér hjól á staðnum?

 

Svar:  Ég sjálf og flest hjólreiðafólk erum kanski ekki rétta fólkið til að svara svona spurningu því  við eru svo sérvitur að okkur finnst það að leigja hjól líkt og að fá lánaðar nærbuxur hjá einhverjum og druslum þess vegna hjólinu okkar með út um allar trissur ..oft að óþörfu og með tilheyrandi kostnaði!  Næst þegar þú ert á flugvelli og sérð einhvern með tösku á stærð við líkkistu þá geturðu nánast bókað þetta er hjólataska en vegna stærðar töskunar, þæginda og kostnaðar er vert að velta fyrir sér hvort stundum  sé betri kostur að leigja hjól.  Hér eru nokkrir punktar sem geta hjálpað þér að taka ákvörðun. 

Ef þú átt hjólatösku eða hjólapoka og þarft ekki að ferðast neitt annað med hjólið þá myndi ég sennilega taka hjólið með, sérstaklega ef þú ert að keppa um að ná ákveðnu sæti eða ákveðnum tíma. Einnig ef þú ef keppnin er lengri en 1,5 klst á hjólinu þá skaltu hiklaust taka þitt eigið hjól þar sem  þú ert vanur uppsetningu, hnakki og stillingum á því.

bikeboxEf mótið er stutt og meira til skemmtunar og ef það er auðvelt að góð leigja hjól á staðnum þá myndi ég sennilega gera það. Einnig ef þú ert að ferðast um milli nokkurra staða þá er algjör baggi að hafa hjólatösku í eftirdragi nema þú getir t.d geymt hana á flugvellinum eða annars staðar  gegn vægu gjaldi. Varðandi kostnað þá getur verið dýrt að ferðast með hjól. Þú þarft að borga aukalega með flestum flugfélögum  (hér 25 pund aðra leið) og svo kemst hjólið ekki inní venjulegan leigubíl (víða erlendis leggja leigubílar ekki niður sæti og stærri leigubílar kosta meira) þannig þú þarft annað hvort station bíl eða minivan sem er auðvitað dýrara hvort sem þú tekur leigubíl eða leigir bíl. Annað varðandi að leigja hjól er að þú losnar við að pakka hjólinu og skrúfa það í sundir en  byrjendur eru gjarnan klaufar við það og sjá fram á að hafa áhyggjur af því að setja það rétt saman osfrv. Það er eitthvað sem kemur samt fljótt með æfingunni. Ég var hálfan dag að pakka hjólinu mínu í fyrsta skipti en er hámark 15 mín að því í dag.

Ef þú leigir hjól þá skaltu athuga fyrirfram hvort leigan/hjólabúðin eigi ekki hjól á lager í þinni stærð. Vertu líka viss um að leigan sé mjög nálægt þér svo það taki ekki hálfan dag að redda hjólinu. Taktu með þína eigin smellupedala og skó. Taktu einnig með flöskuhaldara, viðgerðarpokann þinn, allen lykil  og "aero bars" ef þú átt þau. Áður en þú leggur í ferðalagið, skrifaðu niður hæðina á sætinu og bilið milli sætis og stýris á hjólinu þínu þannig þú getur stillt leiguhjólið strax í rétt hlutföll og þarft ekki að eyða tíma í það.