Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Groundhog Day
13. júlí 2010

Groundhog Day

Dvölin í ölpunum gengur vel en mér er farið að líða pínu eins og í kvikmyndinni Groundhog day þar sem eins og þið kanski munið var hver dagur var nákvæmlega eins. Ekki það að æfingarnar séu alltaf nákvæmlega eins heldur  er mynstrið æfa-borða-sofa-æfa-borða-sofa orðið nokkuð mikið af því góða en ég er ekki "leggja mig týpan" og þyrfti aðeins lengri aðlögun eða bara verða langþreyttari til að taka upp þann sið.

p1020772.jpg

Eins og ég elska þetta sport og hlakka alltaf til hverrar æfingar þá mundi sjarminn held ég vera fljótur að fara eftir meira en viku dvöl í svona rútínu. Ég veit ekki hvort er erfiðara, öfgarnar í æfingunum eða þessi félagslega einangrun. Fólk er svo þreytt milli æfinga að það fer varla út úr húsi nema bara til að rölta út í kjörbúðina.  Gaman! Sumir eru ekki einu sinni með internet og sakna þess ekki þar sem þeir hafa hvort eð er ekki  orku til að gera mikið annað. Ég hef bara aldrei séð svona hraust en úrvinda fólk á ævinni. Þessar æfingar brjóta mann  niður í mél og ég er búin að sjá fleiri en einn í tárum í nokkur skipti.  Ég er ekki hissa, en ef einhver ykkar vill verða  heimsmeistari í Ironman  þá get ég sagt ykkur að þetta er erfiðasta starf í heimi a.m.k miðað við tímakaup. Ég  ber gríðarlega virðingu fyrir þessum íþróttamönnum og nýt þess í botn að vera hér en vá hvað ég verð fegin að "sleppa" heim til fjölskyldunar og í vinnuna á fimmtudaginn.

p1020758_1008709.jpg

Annars er svo heillandi að vera hérna í ölpunum að ég held ég myndi  helst vilja flytja fjölskyldu og vini hingað í einum gámi og setjast hér að.  Hvar annars staðar í heiminum hittir maður áttræðan mann á þriggja gíra reiðhjóli að hjóla upp fjall? Dásamlegt.