Karen Axelsdóttir - haus
18. júlí 2010

Nýtt heimsmet kvenna í Ironman vegalengd

Chrissie%20WellingtonChrissie Wellington setti nýtt heimsmet kvenna í Ironman vegalengd í Ironman Roth Challenge sem haldin var í dag 18 júlí. Hún fór þetta á 8 klst og 19 mínútum  og var 33 mínútum á undan sínum helsta keppinaut Rebecku  Keat. Sjálf átti hún gamla metið sem hún bætti frá því í fyrra á sama velli um 12 mínútur og 46 sekúndur.  Chrissie hljóp maraþonið á 2 klst 48 mínútum eftir að hafa hjólað hröðustu 180 km allra kvenna frá upphafi. Ekki nóg með það heldur kom hún sjöunda í mark að körlum meðtöldum sem þykir með ólíkindum. Þangað til fyrir  tveimur árum þótti nánast ógerlegt fyrir kvenmann að brjóta 9 klukkustundir í Ironman og þetta víst orðið þannig að margir karlmenn í atvinnumennsku draga þátttöku sína til baka ef þeir vita að hún mun mæta  til leiks.

 

Það er nær vonlaust að bera saman Ironman tíma þar sem vellirnir eru svo miserfiðir en það þarf varla að taka fram að Challenge Roth er hraðasti Ironman völlur í heimi. Þannig ef einhver vill  reyna að ná sem bestum tíma þá er þetta besti kosturinn.  Það sem gerir völlinn aðallega hraðan eru mjög litlar  brekkur,  flauel slétt malbik, flatt hlaup og góður skuggi á hlaupinu. Þátttöku í hröðustu vellina þarf að ákveða með 1 árs fyrirvara því um leið og þeir opna fyrir inntöku (oftast á miðnætti daginn sem mót er haldið) þá er venjulega uppselt í hádeginu daginn eftir.