Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > "back up" hvað
19. júlí 2010

"back up" hvað

Í gær var keppt í London League mótaröðinni þar sem ég keppti fyrir liðið mitt. Þetta er svolítið skemmtilegt fyrirkomulag því til að vinna sem heild þá eru það samanlögð stig tveggja bestu karla, bestu konu,  besta +40 ára og  undir 18 ára sem gilda. Það þýðir að ef lið vantar t.d góðan + 40 ára eða konu þá getur það ekki unnið sem gerir það að verkun að liðin reyna að hafa mikla breidd af keppnisfólki og hugsa þarf vel um bæði kyn og  alla aldurshópa.

Í þetta skiptið var liðakeppnin ekki það sem við höfðum áhyggjur af heldur snérist allt um að tapa ekki fyrir 14 ára gamalli stelpu sem var mætt til leiks. Hún heitir Sky Draper og er talið að hún sé  besta  von Bretlands  fyrir ólympíuleikana árið 2016 og hefur síðast liðin 2 ár æft um 20 klukkustundir á viku. Hún er líka búin að vera mikið í fréttum fyrir að mala Jenson Button kappakstursmeistara á móti um daginn en hann keppir mikið í þríþraut og þykir nokkuð góður.


Við Gill vinkona mín sem er atvinnumaður og sérstaklega strákarnir  vorum orðin það stressuð að tapa fyrir 14 ára stelpu að það var komið veðmál í gang og búið að breyta London League nafninu í "Sky Draper Challenge".  Ég fletti aldrei upp úrslitum mínum eða annarra en í þetta skiptið þurfti ég að sjá hvort ég ætti sjéns. Ég  vildi líka sjá hvar ég stæði gagnvart Gill  en við höfum aldrei keppt saman í þríþraut heldur bara í aquathloni (sund+hlaup) þar sem hún malar mig en ég er miklu sterkari en hún á hjólinu. 


Hillingdon 285Ég var þvílíkt spennt, vel stemmd og búin að ákveða að leggja allt undir. Gunni var mættur á hliðarlínuna en hann er snillingur í að gefa mér  og öllu liðinu nákvæm tímasplit og segja mér hvar ég stend en það hjálpar mikið því maður er kolruglaður þegar maður stígur uppúr vatninu í allri þvögunni og veit ekkert hver er á undan og hversu mikið. Þegar ég kom uppúr vatninu hrópaði hann að ég væri þriðja konan og þær hefðu eina mínútu á mig. Frábærar fréttir en ég var búin að búa mig undir að missa meira á þær. Ég hafði synt mitt besta sund frá upphafi og var á undan flestum strákunum í liðinu mínu sem alltaf eru á undan mér. Í þessari þraut var hlaupið (6 km) á undan hjólinu sem er afar  óvenjulegt en hentar mér vel því þá er maður ekkert að spara sig á hjólinu. Ég var búin að reikna að ég mætti ekki missa meira en 90 sek á hlaupinu á Gill annars væri þetta búið spil en hún hleypur venjulega 10 km á 34-35 mínútum. Sky greyið reyndi að halda í hana og sprakk eftir 2.5 km. Ég tók fram úr Sky eftir 3 km og  þá fór hún út í kant og brotnaði niður. Mig langaði nánast bara að stoppa og taka Hillingdon 290utan um hana en að mínu mati er verið að setja alltof mikla pressu á hana mv. aldur bæði varðandi æfingamagn og umfjöllun í blöðum. Hlaupið hjá mér með 1:45 mín  transition og skiptingum var 25:07 þannig ok og nóg til þess að ég missti Gill ekki meira en 1:20 mín í viðbót. Sem sagt hafði 25 km hæðóttan hjólalegg til að vinna upp 2 mín og 20 sek....hef séð það svartara. Mér leið eins og 12 ára strák í æsispennandi tölvuleik og pikkaði upp hvern karlinn á fætur öðrum og heyrði í þeim nokkrum másandi og blótandi fyrir aftan mig (karlar þola ekki að láta stelpur taka fram úr sér :-) en engin Gill. Ég var búin að búa mig undir að sjá hana ekkert fyrr en alveg undir lokin en eftir 14 km birtist hún og ég náði henni um leið. Sama gerðist þá og með Sky hún dró sig í hlé og hætti. Frekar skrítið því annað sætið er nú ekki svo slæmt.

Allavega þetta var ótrúlega sætur sigur og ég var þvílíkt ánægð með sjálfa mig að missa ekki trúna á mér meðan að flestir voru að veðja á aðra hesta og ég átti bara að vera "back up" fyrir Gill ef ske kynni að hún sprengdi dekk  og við hefðum ekki "female scorer". Strákarnir okkar stóðu sig líka þvílíkt vel og við unnum líka liðakeppnina.