Karen Axelsdóttir - haus
22. júlí 2010

Tips til að vera fljótur í og úr blautbúning

Þegar ég er með byrjendur þá tek ég alltaf með mér 1-2 plastpoka. Ég læt viðkomandi setja pokann á viðeigandi hönd eða fótlegg áður þannig rennur fólki í hverja ermi og skálm á mettíma. Til að laga gallann til þá þarftu að byrja neðst og smám saman fikra efnið upp. Neopren er rándýrt og viðkæmt efni þannig aldrei toga gallann til. Kraginn nuddast gjarnan við hálsinn þannig ekki gleyma því að smyrja smávegis af "glide" eða Johnson barnaolíu á hálsinn.  Sumir segja að maður verði að nota glide því olían skemmi gallann. Ég held það sé bara sölutrix en ég hef notað barnaolíu á minn galla í 2 ár og það sér ekki á hálsstykkinu þrátt fyrir alla notkunina.

Til að vera fljótari úr gallanum skaltu smyrja úlnliði og ökla vel af barnaolíu, þannig er nánast útilokað að hann festist á þér eins og maður sér byrjendur gjarnan lenda í. Ef þú ert að keppa þarftu að passa að synda ekki með of stórt úr svo þú festist ekki í erminni. Ef þú ert með tímatökukubb á ökla þá skaltu setja vel af olíu þar í kring og helst setja aukateip við festingarnar á kubbnum svo hann detti ekki af þegar þú ferð úr gallanum, en enginn kubbur þýðir að þú færð bara lokatíma og á meistaramótum geturðu ekki unnið til verðlauna ef þú týnir kubbnum.  

Þegar þú kemur úr sundinu í keppni þá þarftu venjulega að hlaupa 100-400 metra á skiptisvæðið. Um leið og ég kem uppúr skelli ég sundgleraugunum uppá enni og losa mig á ferð úr gallanum niður að mitti og klæði mig svo alveg úr hjá hjólinu. Mörgum finnst betra að klæða sig strax úr og hlaupa með gallann. Þú ert fljótari að því þar sem gallinn rennur betur af ef þú ert rennblautur. Hins vegar er það bannað á öllum fjölmennum mótum þar sem það blokkar hlaupaleiðina ef allir standa á sama punkti að bögglast úr gallanum. Þeim þynnri sem gallinn er þeim erfiðara er að komast í og úr honum.  Þú getur auðveldlega sparkað af þér þykka galla en þynnri galla þarftu að nota hendurnar til losa fæturnar alveg. Á fjölmennum mótum er oftast skylda að setja  gallann í box eða poka merkt númerinu þínu þannig ekki gleyma því svo þú fáir ekki tímasekt. Í Ironman sjá sjálfboðaliðar gjarnan um það fyrir þig :-)

Í hvert skipti sem þú syndir í blautbúning, æfðu þig að vera fljót/ur úr honum í lok sunds og lærðu á þinn galla hvernig þú getur komist úr honunum á sem skemmstum tíma. Ef þú ert t.d 30 sek lengur en einhver að klæða þig úr gallanum það þýðir að þú missir aðra 150 metra fram úr þér . Fyrir vel þjálfað fólk tekur marga mánuði að bæta  5 km og 10 km hlaupatíma um 30 sekúndur þannig ekki henda margra mánaða vinnu fyrir gýg með því að festast í blautbúningum.

p.s svona á að gera þetta