Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Næsta törn
3. ágúst 2010

Næsta törn


Núna síðustu tvær helgar hefur verið smá stund milli stríða. Þetta er búið að vera langt keppnistímabil og framundan eru breska meistaramótið í ólympískri vegalengd þann 15 ágúst og svo Heimsmeistaramótið í Búdapest 8 september.
Keppnisfólk á mjög erfitt með að taka frí frá æfingum og flestir sem ég æfi með gera það ekki í meira en 1 dag þar sem þeim finnst það skapa meiri pressu að sleppa æfingum heldur en að hvíla sig. Í stað þess að hvílast og njóta þess að gera eitthvað annað upplifir flest íþróttafólk í minni grein eins og það sé að missa "allt niður" og fríið snýst því uppí að valda meira andlegu álagi heldur en hvíld.

Til að halda einbeitningu og aga allt tímabilið finnst mér gott að taka nokkur "mini frí" og ég geri það þau skipti sem ég hef 3 vikur milli móta . Þá tek ég 2-3 daga í fyrstu vikunni og geri nákvæmlega það sem mér sýnist. Ligg uppí sófa og borða nammi með krökkunum eða fer á sveitaball og fæ mér vín. Þjálfarinn minn hefur hingað til verið frekar ósáttur við þessi frí mín og segir að ég geti ekki bara látið mig hverfa þegar mér sýnist. Hann segir að ég myndi ná enn betri árangri ef ég gerði þetta ekki og segir að ég eigi amk að gera eitthvað smá til að halda mér við. Þar erum við afar ósammála. Þessi frí gera mér kleift að eiga líf fyrir utan sportið og eru lykillinn af því að viðhalda áhuganum en eftir 2-3 frídaga fæ ég ógeð af því að gera ekki neitt og mæti eldhress og tilbúin í næstu törn.

Þrátt fyrir fríið tókst mér auðvitað að finna mér mót til að keppa í en það var keppni í gúrkuáti sem fór fram í hátíðarhöldunumn á Flúðum. Stærsta tap sumarsins og það verður pottþétt engin gúrka í salatinu mínu á næstunni. Ætlaði að bæta þetta upp í pokahlaupinu en var bolað út þar sem skortur var á þátttöku fullorðina. Frábært frí en nú er komið að næstu törn og ég get ekki beðið :-)