Landhelgi og efnahagslögsaga Íslands
(Smellið til að skoða stærra kort)
Strandríki eiga sjálfkrafa landgrunn að 200 sjómílum frá landi samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Stundum eiga þau víðáttumeira landgrunn frá náttúrunnar hendi og geta þá krafist útvíkkunar á skilgreindu landgrunni. Deilur um landgrunn snerta því yfirráðasvæði ríkja og þar með fullveldi þeirra.

Á landgrunni finnast ýmsar auðlindir svo sem olía og gas, en einnig ýmsir málmar og mikilvægar botnsetutegundir t.d. ostrur og skelfiskur. Athygli manna beinist nú í vaxandi mæli að ýmsum öðrum auðlindum sem kunna að finnast á landgrunninu, til dæmis erfðaefni lífvera.

Útvíkkun landgrunnsins
(Smellið til að skoða stærra kort)

Landgrunnsnefnd S.þ.

Þegar strandríki gerir tilkall til svæðis utan 200 sjómílna þarf það að safna ítarlegum gögnum máli sínu til stuðnings og bera þau undir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Sú nefnd gerir aðeins tillögur til strandríkis um ytri mörk landgrunnsins, en strandríkið getur ákvarða landgrunnsmörkin á endanlegan og bindandi hátt á grundvelli tillagna nefndarinnar.

Landgrunnsnefndin fjallar aðeins um ytri mörk landgrunns utan 200 sjómílna og hún er ekki bær til að fjalla um afmörkun landgrunnsins milli tveggja eða fleiri nágrannaríkja.

Kröfur Íslands utan 200 sjómílna

Kröfugerð Íslands utan 200 mílna
(Smellið til að skoða stærra kort)

Miðað er við miðlínu milli Íslands og Færeyja annars vegar og Grænlands hins vegar, þar sem fjarlægðin er styttri en 400 sjómílur.

Eyjan Jan Mayen er í 290 sjómílna fjarlægð frá Íslandi. Í samningi milli Noregs og Íslands var samþykkt viðurkenning á fullri 200 sjómílna fiskveiðilögsögu Íslands. Þar að auki var afmarkað 45.000 ferkílómetra sameiginlegt nýtingarsvæði norðaustan við Ísland, þar sem fjórðungur svæðisins er innan íslenskrar efnahagslögsögu.

Ísland gerir nú tilkall til landgrunns á þremur svæðum utan efnahagslögsögunnar, þ.e. á Reykjaneshrygg og Hatton Rockall-svæðinu í suðri og í Síldarsmugunni í norðaustri, en þar er samtals um milljón ferkílómetra svæði að ræða.

Aðeins Ísland gerir kröfu um landgrunnsréttindi á Reykjaneshrygg, en á Hatton Rockall-svæðinu hafa Bretland, Írland og Danmörk, fyrir hönd Færeyja, einnig sett fram kröfur um slík réttindi. Viðræður fara fram um Hatton Rockall-svæðið með það að markmiði að ná samkomulagi um skiptingu þess. Í suðurhluta Síldarsmugunnar gera Noregur og Danmörk, fyrir hönd Færeyja, einnig kröfu til landgrunnsréttinda. Á síðasta ári var samið við Noreg og Færeyjar um skiptingu svæðisins og munu ríkin senda greinagerðir til landgrunnsnefndarinnar.

< Fyrri síða   |   Upphafssíða    |   Næsta síða >