þri. 7. maí 2024 12:40
Margrét EA landar íslenskri sumargotssíld á síðasta ári. Veiðihlutfall í aflareglu verður hækkað um rúman fjórðung í 19%.
Veiðihlutfall sumargotssíldar hækkað um fjórðung

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur uppfært aflareglu fyrir sumargotssíld og verður veiðihlutfall 19% næstu fimm fiskveiðiár, en næsta hefst 1. september. Um er að ræða rúmlega fjórðungs hækkun frá þeim 15% sem er á yfirstandandi fiskveiðiári.

Tilkynnt er um þetta á vef stjórnarráðsins. Þar segir að ákvörðunin sé tekin í kjölfar samráðs við hagsmunaaðila og endurskoðunar Hafrannsóknastofnunar og Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES).

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla í sumargotssíld fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 var 96.234 tonn sem er 40% meira en fiskveiðiárið á undan. Ekki hefur verið gefin út ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár (2024/2025) en með þessari miklu hækkun í veiðihlutfalli má ætla að ráðgjöf um hámarksafla íslenskra uppsjávarskipa sé ekki líkleg til að dragast saman.

„Stjórnvöld settu fyrst aflareglu fyrir íslenska sumargotssíld fiskveiðiárið 2017/2018 en á þeim tíma var sníkjudýrasýking í stofninum sem olli miklum afföllum. Aflareglan var sett til fimm ára líkt og tíðkast hefur með aflareglur stjórnvalda í öðrum tegundum eins og þorski og ýsu. Þrátt fyrir að sýking sé viðvarandi í stofninum eru afföll af völdum hennar nú talin mun minni en þau voru þegar aflareglan var sett,“ segir í tilkynningunni á ef stjórnaráðsins.

Væri veiðihlutfall í aflareglu fyrir sumargotssíldina 19% á yfirstandandi fiskveiðiári væri ráðgjöf um hámarksveiði í tegundinni líklega mikið hærri en hún er.

 

til baka