þri. 7. maí 2024 16:12
Aron og Brynjar mynda poppdúóið ClubDub.
„Enginn á Íslandi getur gert það sem við erum að gera

Brynjar Barkarson og Aron Kristinn Jónasson sem mynda poppdúóið ClubDub, segja þá vera besta tónlistargengi landsins. Þeir eiga erfitt með að lýsa tónlistinni sem þeir gera. 

„Það er ekki hægt, þú verður bara að hlusta á eitthvað af þessu. Ég hugsaði í gær að það getur enginn á Íslandi gert það sem við erum að gera. Þið getið reynt og reynt og reynt, það fer engin í hljóðverið og gerir lag eins og ClubDub nema Clubdub,“ sögðu þeir í viðtali í Ísland vaknar í morgun.

„Við erum stundum að fara í gegnum gamalt efni frá okkur og hugsum bara, hvernig fórum við að þessu?“ bætir Brynjar svo við. 

„Maður reynir kannski að gera eitthvað ClubDub lag fyrir stúdíóið og spyr sjálfan sig hvernig maður á að gera það. Fólk sendir okkur takta sem eiga að vera sniðna að okkar hljómheim en það er ekki hægt.“

Einbeita sér að móðurmálinu

Brynjar og Aron komu inn í íslenskan tónlistarheim með krafti árið 2018 og hafa mörg lögin þeirra slegið í gegn. Á miðnætti í kvöld kemur út ný plata frá þeim. 

„Þetta eru sjö lög sem við gefum út. Við höfum haldið spilunum þétt að okkur og höfum sjaldan verið á öðrum plötum og vinnum þetta mikið tveir. Á þessari plötu er samt Bríet með í einu lagi og Birnir með í öðru,“ segir Aron. 

Er ætlunin að fara með tónlistina út í heim? 

„Ef heimurinn vill fá okkur þá förum við þangað,“ svarar Brynjar. „Ef við værum að sækjast eftir því þá værum við að gera tónlist á ensku. En það myndi kannski bitna á gæðunum. Við höfum gert lag á ensku og það var gott en erum bara núna að spá meira í að gera á móðurmálinu,“ bætir Aron við. 

Kostar þrjár milljónir að gefa út plötu

Þeir segjast ekki sjá mikið af streymistekjum enn þá og vonast þeir eftir verulegri spilun í útvarpi. „Svo fær maður eitthvað en þetta er peningur sem maður eyðir í eitthvað bull,“ segir Brynjar. 

Þeir byrjuðu að vinna plötuna í nóvember síðastliðnum og ætla þeir að fagna útgáfu hennar með veislu. „Það verður partí á morgun á Auto. Bara til að brúa bilið, það kostar næstum þrjár milljónir að gefa út plötu, það er alveg frekar mikið. Fyrir sjálfstætt starfandi tónlistarmenn þá hjálpar allt. 

Við ætlum að spila plötuna í gegn. Svo munum við gera myndband við lagið sem við gerðum með Birni. Mér finnst það svo töff að ég held það fari út í heim. Eigum eftir að taka það upp en við erum með stóra sýn fyrir það. Ég vil ekki hræða ykkur en ég held við séum bara farnir út eftir það.“

Hlustaðu á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. Í lok viðtalsins er lagið Augnablik með ClubDub ásamt Bríeti spilað.

 

 

til baka