lau. 11. maí 2024 19:00
Margar kanónur í íslenskri rithöfundaflóru hafa hlotið Íslensku barnabókaverðlaunin í gegnum tíðina eins og til dæmis Yrsa Sigurðardóttir árið 2003 fyrir Biobörn.
Barnabókaverðlaun verða myndbókaverðlaun

Íslensku barnabókaverðlaunin hafa gengist undir gagngera breytingu. Héðan í frá verður eingöngu óskað eftir óútgefnum handritum að myndríkum bókum; allt frá myndabókum fyrir yngstu lesendurna að myndasögum fyrir unglinga og öllu þar á milli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Forlaginu en breytingin var ákveðin af stjórn Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka og er vonin sú að breytingin hleypi nýju lífi í myndbókaútgáfu.

Nýtt nafn valið og verðlaunafé hækkað

Um leið hljóta verðlaunin nýtt nafn, Sólfaxi – íslensku barnabókaverðlauninHeitið er sótt til samnefndrar myndabókar sem unnin var í samstarfi Ármanns Kr. Einarssonar og listmálarans Einars Hákonarsonar. Útgáfa bókarinnar árið 1972 markaði ákveðin þáttaskil í íslenskri barnabókaútgáfu. Sólfaxi var gefinn út í stóru broti og hver vatnslitamynd Einars þakti heila opnu, prentuð í lit. Höfundarnir unnu sameiginlega að bókinni allt frá upphafi og var markmið þeirra að listgrein hvors um sig fengi að njóta sín sem best.

Þá verður Verðlaunafé jafnframt hækkað úr 1.000.000 krónum í 1.500.000 krónur. Að verðlaununum standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Barnavinafélagið Sumargjöf og Forlagið.

Eftirspurn eftir myndskreyttum bókum aukist

Reglur Íslensku barnabókaverðlaunanna hafa hingað til kveðið á um að ekki sé gert ráð fyrir að verðlaunasagan sé myndskreytt og hefur aðeins verið vikið frá því í örfáum tilvikum. Í hinni sjónrænu veröld streymisveitna og samfélagsmiðla hefur eftirspurn eftir ríkulega myndlýstum barnabókum hins vegar aukist umtalsvert. Stjórn Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka fannst mikilvægt að svara þessu kalli, nýta verðlaunin til að styðja sérstaklega við útgáfu slíkra bóka og styrkja þá sem skapa myndríkar bækur.

Allir hvattir til að taka þátt

Samkeppnin er opin öllum og stjórn Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka hvetur bæði nýja og starfandi höfunda til að taka þátt. Frestur til að senda inn handrit er til og með 1. október 2024. Allar nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Forlagsins.

Íslensku barnabókaverðlaunin voru stofnuð árið 1985 í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar. Frá upphafi hefur markmið verðlaunanna verið að styðja við íslenska barnabókaútgáfu og auðvelda nýjum höfundum að koma sér á framfæri. 

til baka