mið. 8. maí 2024 11:05
ESA hefur höfðað mál gegn ÍSlandi fyrir EFTA-dómstólnum fyrir að hafa ekki innleitt EES-gerðir um hafnarmannvirki.
ESA höfðar mál gegn Íslandi vegna hafnarmannvirkja

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að vísa máli gegn Íslandi til EFTA-dómstólsins þar sem Ísland hefur ekki tilkynnt að það hafi innleitt í landslög EES-gerðir um hafnarmannvirki.

Fram kemur í fréttatilkynningu ESA að málið varðar „reglugerð um veitingu hafnarþjónustu og sameiginlegar reglur um fjárhagslegt gagnsæi hafna, auk breytingarreglugerðar sem veitir heimild til að sýna sveigjanleika varðandi innheimtu hafnarmannvirkjagjalda í tengslum við COVID-19.“

Fjallað var meðal annars um reglugerðina í áliti Samkeppniseftirlitsins á síðasta ári um samkeppnishindranir á flutningamarkaði. Kom þar fram að Samkeppniseftirlitið taldi að í innleiðingu reglugerðarinnar fælist tækifæri til að stuðla að virkari samkeppni í flutningum á Íslandi.

„ESA hefur hvorki verið tilkynnt um að Ísland hafi innleitt reglugerðina í landslög, né hefur ESA fengið aðrar upplýsingar sem benda til að svo hafi verið gert. Frestur til að innleiða reglugerðina, sem og breytingareglugerðina, rann út þann 1. febrúar 2023,“ segir í tilkynningu ESA.

Vísun mála til EFTA-dómstólsins er lokaskrefið í formlegu samningsbrotamáli ESA gegn Íslandi. EFTA-dómstóllinn mun nú dæma í máinu.

til baka