fim. 9. maí 2024 12:30
Jasmín Erla Ingadóttir er á batavegi
Vissi ekki hvar hún var

Jasmín Erla Ingadóttir, leikmaður Vals, varð fyrir höfuðmeiðslum í sigri Vals á Keflavík í Bestu deild kvenna í gær. Jasmín var flutt með sjúkrabíl á spítala en líðan hennar er góð eftir atvikum.

Jasmín fékk boltann í höfuðið frá andstæðing en eftir aðhlynningu sjúkraþjálfara spilaði hún í tæpar tíu mínútur áður en henni var skipt út.

„Hún datt alveg út í gær og vissi ekki hvar hún var, við hvern hún var að spila og í hvaða liði hún væri,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, aðstoðarþjálfari Vals, í samtali við mbl.is í dag.

 

„Hún fór upp á sjúkrahús og fær aðhlynningu þar og kom aftur á völlinn. Þá var hún með fullu ráði en fann til ógleði og með smávægilegan höfuðverk.“

Ásgerður segir að engar áhættur séu teknar með höfuðmeiðsli og Jasmín snúi ekki á völlinn næstu vikurnar.

„Henni líður betur í dag en hún verður frá í tvær til fjórar vikur eins og vinnureglur okkar segja til um í meiðslum sem þessum.“

Jasmin

„Hún fær boltann í gagnaugað og féll til jarðar en var með fullu ráði þegar sjúkraþjálfarinn hlúði að henni. Nokkrum mínútum síðar kallaði Fanndís (Friðriksdóttir innsk.) á okkur því þá var Jasmín að spyrja hana hverjir væru að spila í hennar liði. Jasmín byrjaði að kúgast á leiðinni af vellinum vegna ógleði og fór með sjúkrabíl á spítala. En hún er komin á lappir og var vel áttuð í gærkvöldi og leið vel í morgun,“ sagði Ásgerður að lokum.

til baka