mán. 1. júlí 2024 20:39
Miðflokkurinn hefur aldrei áður mælst með meira fylgi í Þjóðarpúlsi Gallup.
Miðflokkur aldrei stærri: „Kominn tími á kosningar“

Miðflokkurinn hefur aldrei mælst með meira fylgi í þjóðarpúlsi Gallup en þeim sem birtist nú fyrr í kvöld. Formaður flokksins spáir kosningum á næsta leiti og segir þrjú mál vera helstu áherslumál flokksins.

Miðflokkurinn mælist með 14,5% fylgi í könnun Gallup sem RÚV greindi frá fyrr í kvöld. Flokkurinn hefur aldrei frá stofnun mælst með meira fylgi hjá Gallup en síðast náði hann hápunkti þann 29. febrúar árið 2020 þegar hann mældist með 14,2% fylgi.

„Við höfum ekki reynt að elta kannanir heldur haldið okkar striki, þegar gengur vel og illa. Auðvitað gleðst maður yfir því þegar hlutirnir eru í rétta átt en heldur sínu striki,“ segir Sigmundur í samtali við mbl.is, en hann er núna staddur í Þýskalandi með fjölskyldunni.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/07/01/samfylkingin_nidur_i_27_prosent_og_vg_ut_af_thingi/

Stjórnmálaumræðan byrjuð aftur

Hann segir að á meðan kórónuveirufaraldrinum stóð þá hafi flokkurinn farið í smá lægð þar sem stjórnmál voru almennt ekki rædd.

„En nú er stjórnmálaumræðan byrjuð aftur á Íslandi og veitir ekki af – þær aðstæður sem henta okkur. Við erum með stefnu og viljum gjarnan að það sé rætt um landsins gagn og nauðsynjar, hvernig megi gera hlutina betur,“ segir hann.

 

„Löngu kominn tími á kosningar“

Í könnuninni mælist Framsókn með 6,6% fylgi og Vinstri grænir 4% fylgi. Í ljósi þess að Miðflokkurinn var upphaflega klofningsframboð Framsóknar vekur það athygli að flokkurinn skuli vera með rúmlega tvöfalt meira fylgi en Framsókn. 

Þá mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 18,5% fylgi og aðeins 28% svarenda segjast styðja ríkisstjórnina.

Er kominn tími á kosningar?

„Ég held að það sé löngu kominn tími á kosningar en ég held að það sé einmitt þessi staða ríkisstjórnarinnar, það er að segja lítið fylgi hennar, sem hefur komið í veg fyrir kosningar. Þessir flokkar væru allir löngu orðnir fegnir að losna úr þessu samstarfi en enginn þeirra þorir því á meðan fylgið þeirra er eins og það er,“ segir Sigmundur.

Telur að VG sprengi samstarfið í haust

Hann bendir þó á að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi beðið afhroð í kosningunum 2013 eftir að hafa hangið út kjörtímabilið, við litlar vinsældir landsmanna.

Sigmundur telur þó líklegt að einhver flokkanna muni vilja vera fyrstur til að slíta samstarfinu áður en kemur að kosningum í september á næsta ári.

„Eins og sakir standa þá myndi ég veðja á það verði VG eftir landsfund þeirra í október,“ segir Sigmundur.

 

Efnahagsmál, orkumál og útlendingamál

Ef það myndi gerast þá væru aðeins nokkrir mánuðir í þingkosningar.

Hvað er það helsta sem Miðflokkurinn myndi leggja áherslu á ef kosið yrði eftir nokkra mánuði?

„Það eru hlutir eins og efnahagsmálin, það er að segja rekstur ríkisins, og það eru orkumálin og útlendingamálin. Þessum hlutum þarf að koma í lag því að allt annað tengist þessu. Allt annað tengist útlendingamálunum. Húsnæðismarkaðurinn, heilbrigðiskerfið, menntakerfið. Allt það er háð því að það takist að ná stjórn á ástandinu í hælisleitendamálunum.“

Hann segir að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hafi einmitt tiltekið þessi mál því hún áttaði sig á því að þetta væru stóru málin.

til baka