þri. 2. júlí 2024 08:55
Nærtækur strandveiðibátur kom umræddum strandveiðibát til aðstoðar og þar með í veg fyrir að hann ræki alveg upp í fjöruna.
Myndband: Óttuðust að bátinn ræki í fjöruna

Slysavarnafélaginu Landsbjörg barst útkall rétt fyrir klukkan fjögur í nótt vegna strandveiðibáts sem óttast var að ræki upp í fjöru á Suðurnesjum.

Það var áhöfnin á björgunarskipinu Hannesi Þ. Hafstein frá Sandgerði sem brást við útkallinu auk þess sem mannskapur var til taks í landi ef bátinn myndi reka í fjöruna. Þetta segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við mbl.is.

 

Fór betur á en horfðist

Það fór þó betur en á horfðist því nærtækur strandveiðibátur gat sett spotta í strandveiðibátinn sem óskaði aðstoðar og komið þar með í veg fyrir að hann ræki alveg upp í fjöruna.

Aðgerðin gekk því mjög vel og var strandveiðibáturinn kominn í tog hjá Hannesi Þ. Hafstein um klukkutíma eftir að útkallið barst, að sögn Jón Þórs, og var þá siglt með hann til hafnar í Sandgerði.

Auk björgunarskipsins og þeirra sem voru til taks í landi var þyrla landhelgisgæslunnar kölluð út og var hún til taks á meðan á aðgerðinni stóð.

til baka