lau. 27. júlí 2024 19:00
Mikilvægt er að grípa markvisst inn í ef barnið eða unglingurinn upplifir einmanaleika.
Er barnið þitt einmana?

Samkvæmt Heilsuveru hafa börn, sem og fullorðnir, mismunandi þarfir og áhuga á félagslegum samskiptum. Sumum börnum finnst gott að fá að leika sér ein í ró og næði eftir skóla þrátt fyrir að eiga auðvelt með að tengjast vinunum í skólanum. Það er því ástæðulaust að hafa áhyggjur svo lengi sem barninu líður vel. Hins vegar, ef barnið virðist oft dapurt, leiðist mikið og þráir ekkert meira en að leika við bekkjarfélagana en tekst ekki að falla nógu vel inn í hópinn er full ástæða til að bregðast við. 

Einmanaleikinn getur verið lúmskur og ekki alltaf auðvelt að koma auga á hann. Hann getur þó orðið kvíðavaldur og orðið til þess að börn og ungmenni þróa með sér slæma sjálfsmynd seinna á lífsleiðinni. Það getur verið gott að hlusta á hvernig barnið talar um sig sjálft því algengt er að börn fari að líta á sig sem leiðinlegri, vitlausari eða minna virði en önnur börn. Börn sem upplifa mikla depurð og kvíða eða hafa skerta félagsfærni eru líklegri til að einangrast. 

Hér að neðan eru nokkur góð ráð til að hjálpa barninu ef það er einmana. 

Félagsleg virkni er mikilvæg

Hægt er að vera til staðar á marga mismunandi vegu en gott er að gera ekki of mikið úr vinaleysi barnsins eða unglingsins. Fínt er að byrja á að skoða hvar barnið getur verið félagslega virkt og finna hvar þeirra áhugamál liggja. Stundum er smá hvatning nóg til að taka á skarið og taka þátt í íþróttum, listum, skátunum eða öðru félagsstarfi. Allt býður þetta upp á frábær tækifæri til að hitta jafnaldra. Ef barnið á erfitt með að tengjast skólafélögum er tilvalið að hafa oftar samband við frænkur og frændur á svipuðum aldri. Það er alltaf gott að styrkja fjölskylduböndin!

Stuðningur skiptir sköpum

Ef talið er að skert félagsleg færni hafi áhrif á vinaleysi barnsins er mikilvægt að barnið fái stuðning, t .d. ef um er að ræða skort á tilfinningafærni, félagsþroska eða hegðunarstjórnun. Algengt er að börn með skerta félagsfærni lendi í einskonar vítahring þar sem þau fá færri tækifæri til að eiga samskipti við t.d. bekkjarfélaga og þjálfa félagsfærnina. Þess vegna eiga þau í hættu á að dragast aftur úr miðað við jafnaldra. Það getur breytt öllu fyrir þau að eiga góðar fyrirmyndir og fá viðeigandi leiðsögn sem hjálpar þeim að sjá samskipti með jákvæðum augum. Ef börnin fá rétt aðhald hafa þau alla burði til að blómstra.

Samskipti við skólann lykilatriði í einelti 

Ef barnið eða unglingurinn er mikið einmana er nauðsynlegt að ganga úr skugga hvort að einelti sé um að ræða og taka á því markvisst ef það er niðurstaðan. Fyrsta skrefið er að foreldrar og skóli myndi teymi þar sem stöðug samskipti eiga sér stað um líðan barnsins í skólanum og tengslum þess við skólafélaga. Það er margt sem skólinn getur gert til að bæta tengsl innan bekkjarins og margir kennarar eru þrællærðir í hvernig á að takast á við einelti. Einnig er margt sem foreldrar geta gert eftir skóla til að auka líkur barnsins á að mynda félagsleg tengsl. Foreldrar geta t.d. talað við foreldra í bekknum og skoðað möguleikana á að skiptast á heimsóknum eða mynda „skutlgrúbbur“ svo að nokkrir félagar geta farið saman á íþróttaæfingu eða í annað tómstundastarf. 

til baka