lau. 20. júlí 2024 07:25
Hvammsvík er náttúruperla skammt frá höfuðborgarsvæðinu.
Bjóða upp á hráa íslenska náttúruupplifun

Hvammsvík er einstök náttúruparadís í Hvalfirði í innan við klukkustundar fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Saga Hvammsvíkur teygir sig allt aftur til tólftu aldar eins og getið er í Landnámu þegar Hvamm-Þórir settist að á svæðinu. Lengi vel var búskapur í Hvammsvík, þar var herstöð í seinni heimsstyrjöldinni, golfvöllur, tjaldsvæði og veiði um tíma.

„Í Hvammsvík er boðið upp á gistingu, samkomusal, veitingar og sjóböð sem bjóða gestum upp á hráa íslenska náttúruupplifun. Mikið er lagt upp úr sjálfbærnisjónarmiðum og til dæmis er allt vatn fengið af svæðinu, heitt, kalt og sjór sem notað er til kyndingar, í laugarnar og sem drykkjarvatn,“ segir Hilmar Þór Bergmann, rekstrarstjóri Hvammsvíkur.

Hálfgleymd perla

Hann segir að með tilkomu Hvalfjarðarganganna hafi Hvalfjörðurinn orðið að hálfgleymdri perlu. „Það er mikið af fallegum gönguleiðum í firðinum svo ekki sé minnst á fegurð fjarðarins í heild og þá náttúru sem umlykur mann þegar keyrt er um fjörðinn.“

Þá sé margt hægt að gera á svæðinu. „Það er til dæmis tilvalið að kíkja í sjóböðin eftir golfhring í Brautarholti á sumrin eða eftir göngu upp að Glym. Að mínu mati er það ein fallegasta gönguleið landsins. Glymur er nú næsthæsti foss landsins og var lengi talinn sá hæsti, útsýnið yfir gilið sem fossinn dettur í úr tæplega 200 metra hæð er ómetanlegt,“ segir Hilmar. Hann nefnir einnig aðrar gönguleiðir á svæðinu eins og Þyril, Síldarmannagötur, Botnssúlur yfir á Þingvelli, um skógræktina í Fossárdal eða að Þórufossi.

„Þá er vert að nefna að aksturinn til Þingvalla frá Hvammsvík eru tæpar þrjátíu mínútur þegar keyrt er um Kjósarskarðið. Laxnes hestaleiga er einnig í tæplega þrjátíu mínútna fjarlægð og Hernámssetrið á Hlöðum er sjáanlegt frá Hvammsvík norðan megin í firðinum. Fyrir veiðimenn er tilvalið að byrja eða enda daginn í Hvammsvík þegar förinni er heitið að Meðalfellsvatni eða Þingvallavatni.“

 

Stolt af umsögnum gesta

Á dögunum var tveggja ára afmæli Hvammsvíkur fagnað en viðtökurnar frá stofnun hafa farið fram úr björtustu vonum að sögn Hilmars. „Umsagnir gesta er eitthvað sem við erum ótrúlega stolt af. Okkur þykir líka einstaklega gaman að sjá hvað margir Íslendingar hafa komið til okkar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar frá opnun,“ segir Hilmar.

„Manni finnst  alltaf eins og við höfum opnað í gær þó mikið vatn hafi runnið til sjávar á sama tíma. Móttökurnar hafa verið frábærar frá fyrsta degi og við erum einstaklega stolt af starfsfólkinu okkar sem hefur stuðlað að því að umsagnir gesta hingað til eru eins góðar og raun ber vitni.“

Hvammsvík hefur verið einstaklega vinsæl á meðal útivistarfólks, sjósundsfólks, fyrir litla hópa sem hópefli og þeirra sem einfaldlega vilja slaka á í heitum pottum með frábæru útsýni. „Kyrrðin og náttúran sem umlykur okkur, dýralífið sem þrífst á landi og í sjó og hið síbreytilega umhverfi sem sjóboðin eru í er það besta við Hvammsvík að mínu mati,“ segir Hilmar.

 „Það er einstaklega skemmtilegt að sjá og upplifa hversu mikill munur er á ásýnd svæðisins og upplifun gesta eftir árstíma, tíma dags og flóðastöðu svo eitthvað sé nefnt.“

 

Sjávarréttasúpa og sanngjarnt verð

Eins og áður kom fram má finna veitingastaðinn Storm Bistro í Hvammsvík. Staðurinn var opnaður samhliða sjóböðunum þann 16. júlí 2022. Matseðillinn er einfaldur og mikið er lagt upp úr góðu hráefni og sanngjörnu verði. Á honum má finna opnar samlokur, létta rétti en staðurinn er líklegast þekktastur fyrir sjávarréttasúpuna sem slegið hefur í gegn frá opnun að sögn Hilmars. 

„Hinrik Carl meistarakokkur hefur séð um veitingastaðinn frá opnun og er einkar lunkinn við að notast við hráefni úr nærumhverfinu hvar sem kostur er. Matseðillinn er uppfærður tvisvar til þrisvar á ári í takt við hvaða hráefni er í boði hverju sinni. Hinrik skýtur reglulega upp kollinum með pop-up-rétti eins og til dæmis á afmælinu þegar hann grillaði hamborgara beint af býli frá nágrönnum okkar á Hálsi í Kjós fyrir utan sjóböðin hjá okkur.“

 

 



 

til baka