lau. 20. júlí 2024 12:00
Hljómsveitin Babies flokkurinn.
Lagið innblásið af Phil Collins og Stjórninni

Babies flokkurinn hefur gefið út nýtt lag en bassaleikari hljómsveitarinnar, Elvar Bragi, kynnir lagið Næsta hæð í þætti Heiðars Austmanns, Íslensk tónlist.

Heyra má lagið Næsta hæð í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

 

Innblásinn af Phil Collins og Stjórninni

Elvar starfar einnig sem tónlistarkennari og segist oft leika sér að píanóinu á milli tímanna sem hann kennir.

Næsta hæð verður einmitt þannig til,“ segir hann og bætir við að hann hafi á meðan verið að hugsa með sjálfum sér hvað myndi gerast ef breski söngvarinn Phil Collins og íslenska hljómsveitin Stjórnin ættu lausaleiksbarn.

„Lagið fékk samt endanlega mynd þegar við hittumst allir á hljómsveitaræfingu, þar sem töfrarnir gerast,“ bætir hann þó við.

Textasmíðin í höndum Stebba Hilmars

Elvar lýsir því að texta hafi vantað í lagið og að hann hafi því haft samband við Stefán Hilmarsson, söngvara Sálarinnar hans Jóns míns, og beðið hann um að hjálpa hljómsveitinni með textasmíðina.

„Var hann nú heldur betur til í að gera það,“ segir Elvar.

Nefnir hann að hljómsveitina hafi líka vantað söngvara til að syngja lagið og fengið í lið með sér söngvarann Dag Sig.

„Lagið fjallar um að brjótast úr viðjum vanans og grípa hvert tækifæri þegar það gefst,“ segir Elvar að lokum og bætir við að Næsta hæð sé tilvalið til spilunar við öll tilefni.

Heyra má kynninguna í heild sinni í spilaranum hér.

 

til baka