fös. 19. júlí 2024 16:00
Landsmenn geta fundið ýmsar kræsingar á Götubitahátíðinni í Hljómskálagarðinum um helgina.
Stærsta matarhátíðin er um helgina

Ró­bert Aron Magnús­son, maður­inn bak við Götu­bita­hátíðina, heimsótti þau Kristínu Sif og Þór Bæring í þættinum Ísland vaknar en hátíðin fer fram í sjötta skipti í Hljómskálagarðinum um helgina.

Þriðja stærsta hátíð landsins

„Þetta er búið að fara vaxandi ár frá ári og í fyrra fengum við sem sagt vel yfir 50.000 manns,“ segir Róbert og útskýrir að hátíðin sé þar af leiðandi sú þriðja stærsta á landinu og stærsti matarviðburðurinn á Íslandi

„Enda eru þetta yfir þrjátíu söluaðilar sem verða á hátíðinni,“ segir hann þá en þar af selja 26 bara mat. Nefnir hann að svo sé einnig boðið upp á bjór, kokteila og ýmis konar leiktæki og afþreyingu fyrir yngstu kynslóðina. 

Keppast um titil besta götubitans

Róbert nefnir að á Götubitahátíðinni sé keppt um titil „Besta götu­bita Íslands 2024” og að sigurvegarinn keppi fyrir Íslands hönd á European Street Food Awards. Kveðst hann sjaldan hafa séð jafn mikinn metnað meðal þátttakenda og í ár. 

„Það ætla allir að taka titilinn hans Silla,“ segir hann en Sigvaldi Jóhannesson, betur þekktur sem Silli kokkur, hefur unnið íslensku keppnina undanfarin fjögur ár.

https://www.mbl.is/matur/frettir/2024/07/08/vinnur_silli_kokkur_aftur_fyrir_besta_gotubitann/

Heldur Róbert áfram að lýsa spennandi viðburði þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi en heyra má viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

 

 

til baka