sun. 21. júlí 2024 11:00
Margir sakna þess að borða íslenskt nammi þegar þeir eru í útlöndum.
Hvaða matar sakna Íslendingar í útlöndum?

Þau Þór Bæring og Kristín Sif ræða þau matvæli sem bara eru til á Íslandi og landsmenn sakna mest þegar þeir eru erlendis í morgunþættinum Ísland vaknar.

Þór og Kristín hafa bæði búið erlendis og kveðast því kunnug tilfinningunni að sakna íslensks matar.

„Þá fer maður ósjálfrátt að hugsa um íslenskar vörur og þjónustu sem maður saknar,“ segir Þór og bætir við að hann finni fyrir sama söknuði þegar hann fer í styttri ferðir til útlanda.

„Ég væri til dæmis bara í London og vildi að ég gæti farið út í búð og keypt íslenska kókómjólk og skyr til dæmis,“ segir hann og Kristín tekur undir með honum en hún segist oft sakna skyrs í útlöndum.

Grunuð um að smygla í páskaeggi

„Þegar ég bjó úti í Skotlandi þá sendi mamma mér alltaf páskaegg,“ segir Kristín og lýsir því hvernig hún fékk páskaeggin alltaf brotin í hendurnar.

Útskýrir hún að tollverði í Bretlandi hafi grunað að hún væri að reyna að smygla einhverju ólöglega inn í landið með því að setja það inn í páskaeggið.

„Ég var bara að smygla súkkulaði,“ segir hún glettin í bragði.

Þór og Kristín halda áfram að ræða íslenskan mat og hlusta á skoðanir hlustenda á málinu.

Heyra má samræðurnar í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

 

 

til baka