mán. 22. júlí 2024 09:30
Xpeng G6 er framleiddur í fimm litum. Greinilegt er að hönnunin tók mið af vindmótstöðuútreikningum.
Xpeng G6 til höfuðs Tesla Model Y

Ég var sannfærður strax í upphafi reynsluaksturs í Hollandi, um leið og ég settist áreynslulaust í hvítt og þægilegt leðurlíkisklætt bílstjórasætið á Xpeng G6-bílnum, snjalla millistærðarjepplingnum eins og framleiðendur vilja kalla hann (e. Ultra Smart Coupe SUV). Vellíðan streymdi um mig. Mýktin, áferðin og ljóst og einfalt innra byrði bílsins tók þétt utan um mig. Ég gat vart beðið eftir að aka hljóðlega af stað, en kitla pedalann duglega þegar hraðbrautin tæki við. Þar myndu hestöflin 476 skila mér á 4,1 sekúndu upp í 100 km hraða á klukkustund.

Xpeng er splunkunýtt kínverskt rafbílamerki á íslenska markaðnum og eru nú þegar fimm eintök af lúxusútgáfunni G9 komin til landsins. G6 er væntanlegur til landsins í haust en honum er ætlað að keppa beint við hinn gríðarvinsæla Tesla Model Y, söluhæsta bíl á Íslandi í fyrra.

 

 

Viðbótarlúxus og geimskipaútsýni

Auk þess að prófa G6 úti í Hollandi fékk ég að hafa G9-bílinn að láni í nokkra daga hér heima á dögunum. Hann er búinn ýmsum viðbótarlúxus eins og sex tegundum af nuddi í öllum sætum, hita og kulda í fram- og aftursætum, aukaskjá fyrir framan farþega í farþegasæti, þar sem er m.a. hægt að njóta allra helstu lystisemda internetsins, og fleira.

Í báðum bílum er stórt glerþak sem gefur sérlega góða birtu og útsýni, svokallað geimskipaútsýni (e. Starship View).

Það sem heillar mig við Xpeng, ásamt því hversu vel hann fjaðrar, hve hljóðlátur hann er með lítið veghljóð, og þýður í akstri, er fumlaust aðgengið. Það er gott að fara inn og út úr honum, útsýni er prýðilegt og höfuð- og fótapláss sömuleiðis. Maður þarf ekki að ræsa bílinn eða slökkva á honum, heldur nægir að stíga bara inn og út. Bíllinn startar sér sjálfur og slekkur á sér.

Það er einnig eftirtektarvert hve einfaldur hann er að innan og nær öllum aðgerðum hefur verið komið fyrir í snertiskjá.

 

 

Áhersla á tækni

Hljóðkerfið er einnig sér á báti og tæknin sömuleiðis. Í hönnunarforsendum Xpeng hefur höfuðáherslan frá byrjun verið lögð á tölvutæknina og samkvæmt umboðsaðilum bílsins hér heima, Unu, bregðast framleiðendur hratt og vel við ábendingum með nýjum uppfærslum. Upplýsingaskjárinn er því frekar auðskiljanlegur og auðvelt er að finna helstu aðgerðir og nýta sér þær. Þá má einnig leita hjálpar hjá spjallmenni bílsins með því að segja einfaldlega „hæ, Xpeng“.

Bílinn leggur sér sjálfur í stæði. Auðvitað hefur það verið við lýði lengi í nýjum bílum en fídusinn er útfærður á nokkuð einfaldan hátt í Xpeng. Í fyrstu er maður pínu óöruggur að sleppa höndum af stýri og fæti af pedala en traustið vex fljótt.

29 skynjarar bílsins, þar af 12 myndavélar, auka enn á traust, öryggi og áreiðanleika í akstri.

Ungt félag í örum vexti

Xpeng var stofnað í Guangzhou í Kína fyrir tíu árum. Á alþjóðavísu starfa hjá félaginu 15 þúsund manns og 14% þeirra sinna rannsóknum og þróun, samkvæmt þeirri kynningu á bílnum sem ég fékk í uppsveitum Amsterdam þar sem Xpeng er með evrópsku höfuðstöðvar sínar.

Þó að fáir þekki bílinn á Íslandi er hann nú þegar kominn á göturnar víða um heim og útbreiðslan er hröð, árið 2023 seldi Xpeng 150.000 bíla. Á þessu ári verður Xpeng fáanlegur í á öðrum tug Evrópulanda. Einnig er hann kominn til Nýja-Sjálands og víða í Asíu sem dæmi.

Auk þess að vera í eigu kínverskra stofnenda er hinn gamalgróni þýski bílarisi Volkswagen meðal hluthafa auk netverslunarrisans kínverska Alibaba og leigubílafyrirtækisins DiDi.

Það er gaman að minnast á það hér að grunnhugmyndafræði Xpeng gengur út á hreyfanleika, það að komast frá einum stað á annan, sama hvaða tæki er notað til þess. Þannig var til sýnis í Hollandi flygildi nokkurt, eins konar dróni, sem maður situr í og svífur um í. Einnig fengum við að sjá hreinræktaðan flugbíl, sem bæði getur ekið og flogið, og einnig eins konar móðurskip/bíl með flygildi innanborðs; Xpeng AeroHT.

 

 

Leggja sig meðan hlaðið er

Rafhlaða Xpeng G6 er með allt að 570 km drægni sem er dágott og verður gaman að sjá hvernig hún á eftir að standa sig í íslenskum aðstæðum. Aðeins 20 mínútur tekur að hlaða frá 10-80%. Það er vissulega aðeins lengri tími en tekur að dæla bensíni á tankinn en þá er alltaf hægt að leggja sætin í lárétta stellingu og fá sér smá lúr á meðan hlaðið er.

Hægt er að sækja smáforrit sem gerir lykil í raun óþarfan. Með forritinu má opna og loka gluggum, dyrum og hleðsluhólfi. Þá sýnir appið alltaf staðsetningu ökutækisins.

Á kynningunni í Hollandi var sérstök áhersla lögð á að hægt væri að stinga ýmsu í samband við bílinn, eins og til dæmis stórri veitingahúsakaffivél, rafhjólum og -skútum, eða öðrum bílum.

Skottið er viðunandi að stærð og bíllinn getur togað 1.500 kg. Fyrir ökumann og farþega er þráðlaus hleðslupallur fyrir farsíma á mjög hentugum stað í miðjunni en þar er einnig pláss fyrir tvo drykki og stórt geymsluhólf er á milli sæta.

Akstursupplifunin af Xpeng var mjög góð eins og glögglega má sjá af lestri þessarar greinar. Það verður því reglulega spennandi að sjá hvernig Xpeng gengur að fóta sig í samkeppninni eftir að sala fer á fullt skrið í vetur.

 

 

Xpeng G6

Drægni allt að 570 km

Hleðsla úr 10% í 80% á 20 mín.

476 hestöfl

Frá 0-100 km/klst. á 4,1 sek.

Dráttargeta: 1.500 kg

Lengd: 4.753 mm

Breidd: 1.920 mm

Hæð: 1.650 mm

Þyngd: 2.025 kg

Afhending: Haust 2024

Umboð: Una

Verð frá 5,99 millj. með styrk

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 16. júlí. Bílablaðið kemur út þriðja þriðjudag hvers mánaðar. 

til baka