lau. 20. júlí 2024 16:42
Að sögn Hilju var parið ánægt með myndirnar.
Fangaði rómantískt augnablik úr heita pottinum

Hilja Guðmunds var að taka því rólega í heita pottinum heima hjá sér við sólarlag, þann 15. júlí síðastliðinn, þegar hún sá til ungs pars að reyna að ná myndum af sér með sólsetrið í bakgrunni.

Þegar hún tók eftir augnablikinu dugði ekkert annað til nema að fanga það.

„Þetta var bara réttur staður og stund,“ segir Hilja í samtali við mbl.is um augnablikið og myndatökuna.

En hún kunni illa við að kalla á eftir parinu á sundbolnum einum.

Lýsti eftir parinu á Facebook

„Þannig ég ákvað að reyna á mátt Facebook og það sprakk bara einhvern veginn,“ segir hún en viðbrögðin við færslu hennar hafi verið talsvert meiri en hún átti von á.

Hilja birti færslu í Facebook-hópnum Íbúar í Grafarvogi og lýsti parinu til að koma myndunum til þeirra. Myndirnar voru teknar efst á göngustígnum ofan við Gufunes. 

 

Þrátt fyrir heldur almenna lýsingu leið ekki að löngu þar til að parið fannst og Hilja gat afhent þeim myndirnar.

„Þau voru bara frekar sátt,“ segir Hilja um viðbrögð parsins.

 

til baka