sun. 28. júlí 2024 20:30
Mo Farah drakk kaffi áður en hann sigraði.
Maturinn sem Ólympíufarar borða

Matur gegnir griðarlega stóru hlutverki í að hámarka afkastagetu íþróttamanna og þekkingin hefur aukist umtalsvert um mikilvægi mataræðisins. Þótt við séum ekki að fara að keppa á Ólympíuleikunum þá getum við samt tileinkað okkur eitthvað af því sem lagt er á borð íþróttamannanna sem þar keppa.

Næringafræðingur breska liðsins, Wendy Martinson, segir í viðtali við The Times að miklar framfarir hafa orðið á sviði næringarfræðinnar síðan England keppti síðast á Ólympíuleikunum. „Það er allt gert til þess að sjá til þess að íþróttamennirnir séu vel nærðir og nái að viðhalda fullri orku,“ segir Martinson. 

„Við höfum til dæmis alltaf á boðstólum snarl á borð við banana og orkustykki. Þá eru á svæðunum okkar köld böð og staðir til þess að hvílast.“

Kaffi

Mo Farah talaði um það í ævisögu sinni hvernig hann fékk sér alltaf kaffi tuttugu mínútum fyrir hlaup til þess að vekja sig. „Þegar ég kom svo á hlaupabrautina fann ég áhrif koffeinsins. Hendur og fætur fóru að titra og það virkaði.“

Rannsóknir hafa sýnt að kaffi getur komið í veg fyrir þreytu og bætir einbeitingu og styttir viðbragðstíma og getur því verið hjálplegt þeim sem keppa í hvaða íþróttagrein sem er. 

Rauðrófuskot

George Morris hjá vísindateyminu hjá St Mary´s háskóla vinnur með ólympíuförum. Hann segir að rauðrófuskot sé vinsæll valkostur því þau innihalda mikilvæg nítröt og hafa jákvæð áhrif á frammistöðu. „Þessi nítröt hjálpa til við að víkka æðarnar og hámarka þannig þol.“

Rannsóknir hafa sýnt að rauðrófuskot hjálpi fólki að æfa 16% lengur en venjulega. Aðrar fæðutegundir sem gætu haft svipuð áhrif eru spínat, klettakál og radísur. Einnig er hægt að taka inn nítröt í pilluformi en sérfræðingar mæla þó með að fá þessi efni í gegnum hollt matarræði „því það eru svo mörg önnur næringarefni og heilsufarslegur ávinningur sem fylgir hollum mat,“ segir Morris.

Jogúrt hjálpar flórunni

„Hreint jógúrt er gott því það inniheldur kasein, sem er prótein sem hjálpar vöðvunum að jafna sig eftir átök. Þá hafa rannsóknir sýnt að hrein jógúrt styðji við ónæmiskerfið og flóru meltingarvegarins. Grísk jógúrt er í uppáhaldi hjá íþróttamönnum,“ segir í umfjöllun The Times.

til baka