sun. 28. júlí 2024 20:00
Mörg börn hafa gaman af því að leika sér í snjalltækjum.
„Bróðir minn er latur pabbi“

Kona leitar ráða hjá klínískum sálfræðingi í hjálpardálki The Times. Hún hefur áhyggjur af því hvort bróðir hennar sé hugsanlega að gera barni sínu óleik með kærulausu uppeldi en barnið er á einhverfurófi.

Mig langar að leita ráða. Yngri bróðir minn á eitt fimm ára gamalt barn sem er á einhverfurófi. Bróðir minn er latur pabbi og hefur alltaf verið mjög frjálslyndur í uppeldinu. Barnið var á brjósti til fjögurra ára aldurs og sefur enn uppi í rúmi hjá þeim. Nú er staðan þannig að barnið er alltaf fyrir framan skjáinn og mér finnst það sorglegt. Mér finnst það ekki tengjast því að hann sé á rófinu heldur að þetta sé bara þeirra uppeldisaðferð.

Þá hef ég einnig miklar áhyggjur af matarræði barnsins en það virðist lifa á mjög tilbreytingasnauðum mat. Hann er ekki látinn sitja til borðs og ef þau fara út að borða þá er hann alltaf með skjá með sér.

Bróðir minn gantast og segir að barnið hafi járnvilja. Mér finnst barnið bara dekrað og að enginn sé að setja mörk. Hvað á ég að gera?

Svar ráðgjafans:

Þú hefur greinilega miklar áhyggjur af litla frænda þínum sem er með einhverfugreiningu og óttast að ekki sé verið að hlúa að honum nægilega vel og setja honum mörk. 

Ég skil þessar áhyggjur en samt sem áður er varasamt að dæma aðra. Reyndu að vera í þeirra sporum. Auðvitað er ekki gott fyrir börn að verja mörgum klukkustundum á dag fyrir framan skjá. En það þarf að hugsa um fleiri þætti áður en maður fer að dæma aðra.

Þroski einhverfra barna er á öðrum og oft hægari hraða en annarra barna. Það er því ekki óeðlilegt að hann sé enn að sofa upp í eða var á brjósti óvenjulengi. Þá getur einhæft matarræði stafað af því hvernig einstaklingur með einhverfu skynjar áferð og bragð matar.

Heimurinn getur verið yfirþyrmandi fyrir fólk á rófinu og það þarf að finna ýmsar leiðir til þess að takast á við það. Það er ef til vill ástæða þess að bróðir þinn virðist of slakur í uppeldinu þegar hann er bara að bregðast við aðstæðum og gera það sem reynist best fyrir barnið hverju sinni.

Eins og það að fara út að borða getur komið barninu úr ójafnvægi. Þess vegna leyfa þau honum að hafa skjáinn með sér á veitingastaði.

Sem frænka getur þú hins vegar lagt eitthvað af mörkum. Þú getur leikið við hann á þann hátt sem styður við andlegan þroska eins og til dæmis að fara í hlutverkaleiki með það að markmiði að læra samskipti og leysa úr vandamálum sem geta komið upp í daglegu lífi.

Þá er hægt t.d. að semja sögur um ævintýrin sem fylgja því að prófa nýjan mat og kynna honum fyrir nýjum hugtökum og hugmyndum.

Loks gætirðu rætt áhyggjur þínar af næmni við þau og hjálpað þeim að fá einhvern stuðning heima við sem ýtir undir andlegan þroska barnsins.

til baka