fim. 25. júlí 2024 11:00
Jennifer Aniston tekur upp hanskann fyrir barnlausar konur.
Aniston gagnrýnir ummæli J.D. Vance

Leikkonan Jennifer Aniston gagnrýnir harðlega ummæli J.D. Vance vara­for­setafram­bjóðanda re­públi­kana um Kamölu Harris frá árinu 2021. Þá sagði hann að konur eins og Harris, sem höfðu ekki fætt börn, væru barnlausar kattakonur og vansælar í lífinu.

Í færslu á samfélagsmiðlinum Instagram segist Aniston ekki trúa því að varaforsetaframbjóðandi hafi sagt annað eins. „Hr. Vance, ég vona að dóttir þín sé nógu lánsöm til þess að ganga dag einn með eigin börn. Ég vona að hún muni ekki þurfa að gangast undir tæknifrjóvgun því þú ert líka að reyna að taka það frá henni,“ segir Aniston í færslunni. 

Ummæli Vance voru sögð í viðtali við fréttamann Fox News Tucker Carlson. Hann sagði að landinu væri stjórnað af hópi barnlausra kattakvenna sem eru vansælar í eigin lífi og vegna þeirra ákvarðana sem þær hefðu tekið og vilja gera allt landið vansælt líka. Þá hélt hann áfram og minntist á Harris, Pete Buttigieg og Alexandriu Ocasio-Cortez.

„Þetta er bara staðreynd - þú sérð Kamölu Harris, Pete Buttigieg, AOC - framtíð demókrata er stjórnað af barnlausu fólki,“ sagði Vance. „Það er óskiljanlegt að við höfum afhent land okkar til fólks sem á í rauninni ekkert undir því.“

Sjálf hefur Aniston talað opinskátt um sínar eigin áskoranir varðandi barneignir. Í viðtali við Allure árið 2022 minntist hún á hversu sárt það var að hlusta á alla óléttuorðrómana um sig meðan hún var á barneignaraldri. „Fleiri ár af orðrómum. Þetta var mjög erfitt. Ég var að ganga í gegnum margar ófrjósemismeðferðir, drakk öll möguleg te. Ég gerði allt til að verða ólétt. Ef bara einhver hefði sagt mér að frysta eggin mín. Manni datt það bara ekki í hug,“ sagði Aniston.

Þá hefur Aniston einnig sagt að konur séu fullkomnar með eða án barns.

„Við fáum sjálfar að ákveða hvað er fallegt þegar kemur að okkar eigin líkama. Ákvörðunin er okkar. Við þurfum ekki að vera mæður til þess að vera einhvers virði. Við fáum að ráða okkar eigin sögu og hvernig „hamingjusami endirinn“ lítur út.“

 

til baka